12.5.2007 | 00:53
KANNANIR OG KJÖRSEÐLAR
Það er alþekkt trix að túlka skoðanankannanir þannig að atkvæði geti fallið dauð niður. Þetta var gert í borgarstjórnarkosningum 2002. Þá tönnluðust fjölmiðlar á því að Ólafur F. Magnússon væri langt frá því að komast inn, fylgið aðeins 2,7 prósent fyrir kjördag í könnunum. Ólafur fékk tvöfalt meira fylgi í kosningunum og komst inn.
Aftur gerðist það sama 2003. Þá mældu skoðanakannanir mest 3,7 prósent fylgi, fjölmiðlar tönnluðust á því að langt væri frá því að þetta fylgi dygði og andstæðingarnir ræddu um dauð atkvæði. Niðurstaðan var hins vegar sú að upp úr kjörkössunum kom tvöfalt meira fylgi.
Nú er enn og aftur þetta sama reynt með því að segja við fólk að atkvæði greidd Íslandshreyfingunni geti fallið niður dauð og að með því sé stóriðjuflokkunum hjálpað. En þrenn rök mæla gegn því að þetta sé svona.
1. Í könnunum síðustu daga hefur fylgi sumra flokka hlaupið upp og niður um allt að sjö prósentustig á tveimur dögum. Engin leið er að spá nú fremur en 2002 og 2003.
2. Í könnun fyrir þremur dögum sást í fyrsta sinn hvaðan þáverandi fylgi Íslandshreyfingarinnar kæmi og reyndist stærsti hópurinn koma frá Sjálfstæðisflokknum. Næst stærsti hópurinn kom að vísu frá VG en þar er vafalaust um að ræða miðju- og hægri kjósendur sem áður höfðu kosið VG af því að það var eini græni valkosturinn, - en það er einmitt það fólk sem í síðustu tvennum kosningum hefur oft heykst á því í kjörklefanum að kjósa VG og farið aftur á gamla básinn hægra megin.
Þetta fólk gæti átt það til að staðnæmast hjá Íslandshreyfingunni á leið sinni frá VG.
3. Allar kannanir síðustu sex vikur hafa sýnt það sama: Ef Íslandshreyfingin nær 5% fylgi fellur ríkisstjórnin undantekningarlaust og jafnvel fellur líka möguleikinn á hreinni stóriðjustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Og ekki bara það, - þetta er áreiðanlega eina leiðin til að falla slíka stjórn því það er afar ólíklegt að vinstri flokkarnir tveir fái meirihluta.
2- 3ja prósentustiga viðbót Íslandshreyfinginarinnar skapar þrjá nýja þingmenn sem er tvisvar til þrisvar sinnum fleiri þingmenn en sama prósentustigaaukning hjá öðrum flokkum.
Þetta hafa sérfræðingar séð, svo sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)