14.5.2007 | 00:17
ÓLÝÐRÆÐISLEG KOSNINGALÖG
Ólýðræðisleg kosningalög rændu þjóðinni því að hún gæti fellt stóriðjustjórnina. Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði nægt til að koma tveimur mönnum á þing og þar með væri Geir Haarde nú að undirbúa afsögn. Nú hamast sumir á því að Íslandshreyfingin hafi orðið bjargvættur stjórnarinnar með því að taka fylgi frá stjórnarandstöðunni og hjálpa stjórninni til að lafa. Þetta er bæði rangt og ómaklegt.
Sérstaklega er Morgunblaðið iðið við þetta enda tekur blaðið reglulega rispur með Staksteinum sínum dögum saman til að agnúast út í Íslandshreyfinguna. Það er heiður að því fyrir okkar nýja flokk þegar Styrmir og co telja sig knúna til þess að snúast gegn honum, - það gerir hann aðeins gagnvart því sem geti ógnað Sjálfstæðisflokknum.
Síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar gerði Íslandshreyfingin sérstaklega í því að höfða til kjósenda Sjálfstæðisflokknsins með því að leggja áherslur á þau stefnuatriði sem við höfum tekið úr því besta hægra megin frá. Við köllum það Skapandi skattastefnu.
Í skoðankönnun sem birtist í kosningavikunni var sundurgreint fylgi Íslandshreyfingarinnar og kom þá í ljós það sem frambjóðendur hennar hafa orðið vel varir við, að stærsti hluti fylgisins kom frá Sjálfstæðisflokknum en næst stærsti hlutinn frá VG.
Þetta eru einu gögnin sem við er að styðjast og samkvæmt þeim kom Íslandshreyfingin í veg fyrir enn stærri sigur Sjálfstæðisflokksins en annars hefði orðið. Þar að auki veitti Íslandshreyfingin stjórnarandstöðunni alla þá liðveislu sem hún gat og stuðlaði þannig að fylgisaukningu hennar og fylgisminnkun stjórnarinnar.
Upp úr stendur því að með þeim ákvæðum sem sett voru á vegum stóru flokkanna inn í kosningalögin um 5% prósent lágmarksfylgi á landsvísu var þjóðin rænd því að meirihluti hennar réði, - komið var í veg fyrir að lýðræðið fengi framgang.
Tæplega sex þúsund kjósendur Íslandshreyfingarinnar sátu eftir með sárt ennið og laskaða ríkisstjórn sem hefur minnihluta kjósenda að baki sér. Það var dapurlegt og ekki Íslandshreyfingunni að kenna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)