SÆTASTA STELPAN Á BALLINU.

Í Kastljósi síðastliðið sunnudagskvöld spáði ég um það sem nú hefur gerst með eftirfarandi stöku: Þetta er mikið gleði"game" / og Geir er sá snjallasti í rallinu / Með sælubrosi hann svífur heim / með sætustu stelpunni á ballinu.

Það mátti svo sem búast við þessum endalokum. Strax í haust var farið að gæla við þessa hugmynd og þessi tónn var gefinn í blaðinu sem dreift var um daginn í 100 þúsund eintökum (samkvæmt talningu Guðna Ágústssonar). Jafnvel þótt Íslandshreyfingin hefði fengið þrjá menn kjörna þykir mér ólíklegt að Samfylkingin hefði lagt í að mynda stjórn með fjórum flokkum með nauman meirihluta.

Fyrir lá yfirlýsing mín fyirr hönd Íslandshreyfingarinnar um að stóriðjustopp út kjörtímabilið yrði algert skilyrði fyrir aðild hreyfingarinnar að stjórn og óvíst er að Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin hefðu fallist á slíkt stopp.

En var þá eitthvað unnið með þessu framboði Íslandshreyfingarinnar? Jú, umhverfismálunum var haldið gangandi þótt bæði Samfylking og VG væru farin á róa á önnur mið í lok kosningabaráttunnar og yfirbjóða hvort annað í öðrum málum. Og stóriðjustjórnin mikla féll með brauki og bramli.

Ég var að koma til Reykjavíkur austan af Hálslóni þar sem Hjalladalur er að sökkva í boði komandi stjórnarflokka.

Nú er stóra spurningin hvort önnur stóriðjustjórn tekur við og hver verður stóriðju- og virkjanastefnu komandi ríkisstjórnar. Ég er ekkert of bjartsýnn því að Samfylkingin hélt allan tímann opnu fyrir álver á Bakka við Húsavík og fer jafnlétt með það að söðla um í stóriðjumálunum og í Kárahnjúkamálinu á sínum tíma.

Tíu dögum fyrir kosningar voru tólf helstu áhersluatriði Samfylkingarinnar auglýst í heilsíðuauglýsingu, þeirra á meðal Unga Ísland. Fagra Ísland var ekki nefnt á nafn, hvað þá önnur umhverfismál.

En vonandi verður þessi stjórn skárri en sú síðasta enda erfitt að toppa eða öllu heldur botna þá stjórn hvað snertir virkjanmálin.

Það mátti raunar heyra á Steingrími Sigfússyni og Guðna Ágústssyni að þeim þætti kannski ekki öll nótt úti fyrir þeirra flokka. Við skulum bara bíða og sjá.


Bloggfærslur 17. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband