25.5.2007 | 01:08
FJÖGUR ORÐ SEM VANTAÐI.
Var að koma úr leiðangri á Örkinni um Hálslón en þangað var hringt í mig frá útvarpsþættinum Speglinum í gær og spurt um stjórnarsáttmálann. Ég sagði að það vantaði í hann þessi fjögur orð: Hætt verði við Norðlingaölduveitu. Síðan frétti ég í dag að Ingibjörg Sólrún hefði sagt rétt á eftir Speglinum að hún skildi sáttmálann þannig að hætt yrði við Norðlingaölduveitu.
Gísli Már Gíslason ítrekaði þennan skilning og slegið var upp í fjölmiðlum í morgun að 40 ára deilu væri lokið og Norðlingaölduveita endanlega úr sögunni.
Í kvöld (fimmtudagskvöld) kemur síðan fram að Landsvirkjun sé ekki þessarar skoðunar og hún heldur sínu striki. Og Geir Haarde minnir á að ekkert sé minnst á Norðlingaölduveitu í stjórnarsáttmálanum.
Niðurstaða mín er því sú sama og í viðtalinu við Spegilinn: Það vantar fjögur orð í stjórnarsáttmálann. Það er mergurinn málsins.
Óg nú hef ég loksins tækifæri til að skoða hann betur. Mig grunar að það vanti margt fleira í hann og að ýmislegt af því merkilegasta við samkomulag núverandi stjórnarflokka sé fólgið í því sem ekki er fjallað um eða minnst á með orðalagi sem segir ekkert ákveðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)