HVER SEM ER, HVAR SEM ER, HVENÆR SEM ER.

Hver sem er á ferð um Reykjavík getur átt von á því hvar sem er og hvenær sem er að vera barinn til óbóta. Þetta gerist ekki aðeins í miðborginni ef þú ert fótgangandi, - þetta getur líka gerst ef þú ert á ferð í bíl á Vesturlandsvegi. Ég reyndi það nýlega sjálfur að ofbeldið í Reykjavík er komið á það stig að ráðist var bæði á bíl og ökumann á stofnbraut og að ökumaðurinn mátti þakka fyrir að árásarmaðurinn komst ekki inn í bílinn eftir svo hamslausa tilraun til að ganga í skrokk á bílstjóranum að hann braut bæði rúðu og barði bílinn og beyglaði.  

Enda þótt fólk segi við mig að ég eigi að hugsa mig tvisvar um áður en ég fari að heimsækja son minn á Shri Lanka vegna þess að þar sé hættusvæði held ég að fenginni reynslu að ég sé óhultari þar fyrir árás Tamíla heldur en akandi í bíl á fjölförnum vegi áleiðis til Reykjavíkur.

Ef ég færi til Shri Lanka og yrði fyrir árás þar myndi það verða talin bara býsna mikil frétt á Íslandi. En það sætir ekki tíðindum þótt ég sé eitt af átta fórnarlömbum skráðra líkamaárása eitt vorkvöld í Reykjavík, - þetta er nokkuð sem við erum orðin ónæm fyrir, - þangað til við verðum lamin sjálf.

Árásin á Vesturlandsvegi gerðist á björtu sunnudagskvöldi. Ég ók á litlum fornbíl af gerðinni NSU Prinz 1958 hægt og rólega vestur Vesturlandsveg eftir fornbílasýningu í Ræsishúsinu við Krókháls.

Skammt fyrir austan bensínstöð Skeljungs var bíl ekið framúr mér vinstra megin og út um glugga hékk maður sem skók að mér hnefann og hrópaði: "Ómar! Helvítið þitt!"

Bílnum var ekið um það bil hundrað metra fram fyrir mig, en þar var hann stöðvaður á ská, þannig að hann lokaði alveg akreininni í vestur. Út úr bílnum stökk maður, hljóp í átt að Prinzinum og stefndi að vinstra framhorni hans.

Ég varð að hægja mjög á bílnum svo að hann stöðvaðist næstum því en ég þorði ekki að stoppa alveg því að þegar maðurinn kom nær með hnefana á lofti sá ég að andlit hans var afmyndað af heift og hatursbræði og ekki leyndi sér að hann ætlaði að stöðva mig og brjótast inn í bílinn til að ganga frá mér.

Nú kom sér vel að stýrið á Prinzinum er það sneggsta og léttasta sem til er, aðeins einn snúningur borð í borð. Á réttu augnabliki snarbeygði ég til vinstri þannig að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins en ekki því vinstra og varð því að brjótast farþegamegin inn í bílinn ef hann ætlaði að komast til mín.

Dyrnar voru læstar þeim megin en hann lét höggin dynja á bílnum og barði stóra beyglu ofan í húddið. Síðan hafði hann engar vöflur heldur lét hnefann vaða í gegnum rúðuna sem brotnaði svo að glerbrotin dreifðust yfir bæði framsætin. Áfram hrópaði hann: "Ómar! Helvítið þitt!!"

Honum tókst ekki með fálmandi hendi að ná réttu taki á hurðarhúninum að innanverðu og mér gafst tækifæri til að aka áfram og var svo heppinn að akreinin vinstra megin við mig var auð þá stundina og mér tókst komast framhjá bílnum sem átti að loka mig af.

Mér varð ljóst hve heppinn ég hafði verið að maðurinn komst ekki bílstjóramegin að bílnum því að þá hefði hann annað hvort rifið hurðina þar upp eða kýlt mig beint í gegnum rúðuna. Hægra megin dró hönd hans ekki yfir til mín.

Á leið vestur úr sá ég hvork bíl né mann og varð mjög feginn. Kannski sneru árásarmennirnir við og létu sig hverfa enda var þetta órúlega bíræfin árás á svona fjölförnum þriggja akreina vegi. Kannski hafði ætlunin verið að þetta yrði slík leifturárás og tæki svo skamma stund að ekki yrði tekið eftir því.

Ég veit það svo sem ekki, - vegfarendur í Reykjavík eru kannski orðnir svo ónæmir fyrir svona atburðum að hægt er að komast upp með flest.

Ég tilkynnti þennan atburð að vísu til lögreglu svona til að hægt væri að hafa þetta atvik á skrá en að öðru leyti taldi ég þetta ekki fréttnæmara en hverja hinna árásanna sem framdar voru þetta kvöld og þessa nótt. Bíll og menn voru á bak og burt.

Nú veit ég sjálfur hvernig svona árásir gerast. Það er ráðist á þig hvenær sem er og hvar sem er fyrirfaralaust, - þetta er skyndiárás sem lýkur jafn skjótt og hún hófst og árásarmennirnir hverfa jafn skjótt og þeir komu. 

Mér skilst að svona árásir séu oftast tilefnislausar og því skiptir ekki máli hvort þú ert Jón, Gunna Sigurður.

Ef þú hins vegar ert séra Jón eða séra Gunna veist þú heldur ekki hvort árásin er tilefnislaus. Hún getur verið tilefnislaus þótt árásarmaðurinn hrópi nafn þitt í sífellu á meðan á barsmíðinni og formælingunum stendur og að þau orð séu kannski þau síðustu sem þú heyrir hérna megin grafar.

Hún getur líka átt sér tilefni þannig að um það gildi: Ég er, - þess vegna verður mér misþyrmt. Því fleira sem þú hefur gert og því fleiri sem vita það, því fleiri hatursmenn og óvildarmenn áttu sem telja sig hafa gilda ástæðu til að refsa þér og hefna sín grimmilega á þér. Svo einfalt er það.

Það eru tíu dagar síðan þessi árás átti sér stað og ég hafði ekki hugsað mér að gera neitt með hana, - þetta er jú sá veruleiki sem við erum hætt að kippa okkur upp við. En við nánari athugun og vegna umræðna á bloggsíðum um ofbeldið í Reykjavík tel ég það hugleysi og sinnuleysi að láta sem ekkert sé.

Sem bloggari finnst mér rétt að leggja eitthvað til málanna, - ég skulda þeim sem voru óheppnari en ég og lágu meðvitundarlausir  og stórslasaðir eftir árásir einnar nætur og hafa ekki getað tekið þátt í umræðunni um ástandið heldur verða að sleikja sár sín afsíðis og lifa við grimman veruleika. 

Þegar ég var lítill drengur var ráðist tilefnislaust á tónskáldið Árna Björnsson á götu og honum misþyrmt svo að hann varð örkumla eftir það. Sérfræðingar segja að þessa tegund af ofbeldi sé aðeins að finna í Reykjavík, - í öðrum borgum sé helst um að ræða gagnkvæmar hefndarárásir glæpahópa.

Hvenær rennur sá dagur upp að það verði hættulausara að vera á ferð í Reykjavík en á átakasvæðum á Shri Lanka?

Hvenær rennur sá dagur upp að við getum öll sungið áhyggjulaus í friðsemd: "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík?"

 

 

 


Bloggfærslur 30. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband