31.5.2007 | 12:10
"ÞAÐ MÆLTI MÍN MÓÐIR...HÖGGVA MANN OG ANNAN."
Enginn Íslendingur hefur lýst betur hinu sérstaka hugarfari sem býr að baki flestum árásum á fólk á förnum vegi í Reykjavík en Egill Skallagrímsson: "Það mælti mín móðir / að mér skyldi kaupa / fley og fagrar árar / fara á brott með víkingum / standa uppi í stafni / stýra dýrum knerri / halda svo til hafnar / og höggva mann og annan". Eins og ég greindi frá í í bloggi í gær segja sérfræðingar að íslensku árásirnar séu ólíkar árásum í erlendum borgum að því leyti að þær eru oftast tilefnislausar, að því er virðist til þess eins að "höggva mann og annan."
Árásarmennirnir koma eins og elding af himnum hvar sem er í flasið á hverjum sem er, fara hamförum á örskotsstund og hverfa jafnskjótt og þeir komu.
Jafnvel þótt menn kenni aukinni eiturlyfjaneyslu um segir máltækið: Öl er innri maður. Við það að komast í vímuástand leita oft fram duldar kenndir og afleiðingar aðstæðna í æsku, oft mjög óæskilegar.
Engin löggæsla, hversu víðtæk sem hún er, getur komið í veg fyrir árásirnar þegar það liggur fyrir sem ég sagði frá í gær: "Hver sem er, hvar sem er, hvenær sem er."
Íslendingar eru ekkert öðruvísi, betri né verri að upplagi en annarra þjóða fólk.
Erlendis eru svona átök mest á milli glæpahópa eða þá sem hluti af ránum.
Sú tilefnislausa árásarfíkn, sem hrjáir svo marga Íslendinga, hlýtur að liggja í þjóðarkarakter sem á sér jafnvel rætur aftur til Sögualdar, en er þó vafalítið mest um að kenna uppeldinu eða kannski frekar í uppeldisleysinu, agaleysinu, taumleysinu, firringunni og óþolinu sem einkennir okkar tíma.
Þetta brýst fram í þeirri fíkn valda sem Egill lýsir svo vel og birtist í peningum, dýrum hlutum, hnefum, bareflum og vopnum, - öllu því sem færir ofstopamanninum ótakmarkað andlegt og líkamlegt vald yfir öðrum.
Þetta felst í þeim lífsstíl nútímans sem á sér engin takmörk í valdafíkn á öllum sviðum, - allt til þess valds sem menn taka sér til að hafa líf og limi annarra í hendi sér.
Í dag væri þetta orðað svona:
"Það mælti mín móðir
að mér skyldi kaupa
dóp og dýra jeppa
í djamm með flottum töffurum
standa fremst og stjórna
sterku gleðigengi
bruna svo til borgar
og berja mann og annan.
Hugsanlega þarf langan tíma til að breyta þessu með því að leita upprunans, í uppeldi og innrætingu í siðrænum efnum sem svo mjög virðist vera ábótavant í samtíma okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)