6.5.2007 | 00:11
ÓTRÚLEG SÖGUFÖLSUN
Myndspjald Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál sem ég sá á förnum vegi í morgun verður áreiðanlega viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Á spjaldinu eignar flokkurinn sér Vatnajökulsþjóðgarð, segist ávallt hafa verið í fararbroddi náttúruverndar og sýnt þar staðfestu en ekki tækifærismennsku. Hvílík öfugmæli!
Þegar ég gerði alls sex sjónvarpsþætti um möguleikana á Vatnajökulsþjóðgarði fyrir níu árum var þess krafist að ég yrði rekinn úr starfi fyrir þessa þáttagerð og fram fór opinber rannsókn á verkum mínum í kjölfarið þar sem ég var þó sýknaður af þessum ákærum.
Ég og Ólafur F. Magnússon vorum kallaðir hryðjuverkamenn og Ólafur hrakinn úr ræðustóli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Orðið staðfesta er Sjálfstæðismönnum hugleikið. Þessi staðfesta kom okkur Íslendingum í hóp staðfastra þjóða við innrásina í Írak, - flokkurinn var staðfastur við að framkvæma mestu mögulegu umhverfisspjöll hér á landi með Kárahnjúkavirkjun, - hann er staðfastur í því að halda til streitu Norðlingaölduveitu sem þurrkar upp einstaka fossaröð Þjórsár og skaðar ímynd Þjórsárvera, - staðfastur í því að láta Langasjó ekki lenda inni í þjóðgarði heldur vera áfram á dauðalista Landsvirkjunar, - staðfastur í stækkun álversins í Straumsvík og tilheyrandi virkjunum, m.a. í Neðri-Þjórsá, - Sjálfstæðismenn í Skagafirði eru staðfastir í því að virkja jökulárnar þar o.s.frv. o.s.frv.
Flokkurinn er staðfastur í því að hér rísi á endanum sex risaálver fyrir 2020 með tilheyrandi virkjunum og náttúruspjöllum.
George Orwelll hefði ekki getað hrifist af öðru meir hefði hann verið á lífi nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir upp í opið geðið á kjósendum frá staðfestu sinni og forystu um verndun íslenskrar náttúru og sakar aðra um tækifærismennsku!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)