7.5.2007 | 01:25
FOSS GEIRS HAARDE AÐ SÖKKVA
Þrepafoss sem Geir Haarde var svo vinsamlegur að gefa nafn fyrir drekkingu, þegar ég var á ferð með honum í Kringilsárrana í fyrrasumar, er að byrja að sökkva í hækkandi lónið þessa dagana. Þetta sá ég á ferð yfir Hálslón 27. apríl. Fossinn er ósnortinn á bak við mig á myndinni á forsíðu bloggsins.
Sauðárfoss er líka að byrja að sökkva og skammt er í að vatn fljóti yfir fottasta hjallann í dalnum, Hraukahjalla með flugbraut og grýttum jeppa (sjá vefsíðu Hugmyndaflugs).
Þetta var fyrsta ferðin af mörgum dapurlegum sem framundan eru í sumar og næsta sumar til að sigla Örkinni um tvö önnur lón sem verða mynduð og fylgjast líka með uppþurrkun tveggja stórkostlegra fossaraða.
Á mynd með auglýsingum Íslandshreyfingarinnar sést einn þessara fossa, Kirkjufoss, fyrir og eftir uppþurrkun. Á vinstri bakkanum má sjá fólk sem sýnir vel hlutföllin.
Allt er þarna í fullum gangi, búið að gangsetja einn hverfilinn með rafmagni frá byggðalínu þ. e. rafmagn notað til að búa til rafmagn ! Bakkabræður hefðu fílað sig vel þarna ef þeir væru á lífi.
Undir Þrælahálsi urðu sárveikir þrælar Impregilo víst að sleikja gangaveggi á dögunum til að brynna þorsta sínum. Hann var forspár sá sem gaf þessum hálsi nafn í árdaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)