STÓRA FLUGVALLAMÁLIÐ.

Í dag hefur verið fjallað þvívegis í sjónvarpi um lendingarstaði mína á Kárahnjúkasvæðinu, fyrst tvívegis á Stöð tvö og síðan í Kastjósþætti um umhverfismál og látið að því liggja að um umhverfishneyksli sé að ræða. Lítum á þetta stóra flugvallamál í heild. 

Lendingarstaðirnir sem um ræðir eru allir svipaðir lendingarstöðum Flugmálastjórnar á hálendinu, þannig, að þeir eru náttúrugerðir, þ.e. sléttir melar. Til þess að flugvélar spori ekki í þá og eigi auðveldara um flugtak, eru þeir valtaðir á hverju sumri. Eftir frostlyftingu vetrarins eru þeir síðan eins útlítandi og þeir væru ósnortnir og þá þarf að valta þá að nýju.

2002 fékk ég leyfi hjá Umhverfisráðuneytinu til að lenda flugvélum á hjalla í Kringilsárrana. Þessi lendingarstaður er þessa dagana að sökkva í Hálslón, drullupoll Landsvirkjunar.

Ég lenti við Jöklu á botni Hjalladals. Þessi lendingarstaður er sokkinn í drullupoll Landsvirkjunar.

Ég hef lent við Kárahnjúkaveg á lendingarbraut undir Snæfelli, sem merktur er inn á kort Landmælinga þótt Flugmálsstjórn haldi honum ekki við nú.

Ég útbjó lendingarstað á Sauðármel norðan Brúarjökuls með þremur brautum, 1400, 1000 og 700 metra löngum og valtaði þær 2004. Þangað flaug ég með fjölmiðlamenn í júlí og með fjölda fólks til og frá staðnum í þrjú sumur, þar á meðal þrjá ráðherra, Geir Haarde, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Jónínu Bjartmarz, og tvo alþingismenn.

 Ég fór með fulltrúa frá Umhverfisstofu á völlinn og gerði sveitarstjórninni ítarlega grein fyrir honum, auk manna frá Landsvirkjun og Impregilo.

Engum hefur flogið í hug umhverfisspjöll fyrr en nú, fjórum dögum fyrir kosningar.

Helsta gildi þessa vallar er að hann er stærsti og besti lendingarstaðurinn á hálendinu, sá eini á stóru svæði, og Fokker F50 vél Flugfélags Íslands gerði aðflug að honum 2005 vegna þess að hann gæti nýst fyrir svo stórar flugvélar í neyðartilfellum.

Hann gæti þjónað vel sem sjúkraflugvöllur og verið stórt öryggisatriði í fjöldaslysum eins og við Hólsselskíl fyrir nokkrum árum.

Máltækið segir: "Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" og það á við í þessu tilfelli þótt það hafi tekið hundstunguna þrjú ár að finna það sem hún leitaði að.

Sjá: islandshreyfingin.is


Bloggfærslur 8. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband