HRIFLU-JÓNAS ENDURLIFNAR Í GUÐNA.

Í spjalli um kosningarnar var oft talað um að þjóðin hefði hafnað Framsóknarflokknum en meginatriði málsins var einfaldara: Það voru fyrrum kjósendur Framsóknarflokksins sem fóru frá honum eins og ég tók þá margoft fram. Þetta skynjar Guðni Ágústsson nú og horfir inn á við til orsakanna í eigin flokki. Hann setur fram hugmynd um þriggja flokka kerfi, einn hægri flokk,einn vinstri flokk og Framsókn vinstra megin á miðjunni.

Þarna er hin gamla Framsóknarhugmynd Jónasar frá Hriflu enn sprellifandi, 90 árum eftir að Jónas setti hana fram.

Gallinn er bara sá hve allt hefur breyst á þessum 90 árum. Það var mjög breitt pólitískt bil á milli Íhaldsflokksins og hins sósíalíska Aþýðuflokks. Auk þess gat Framsókn höfðað til fjölmennrar bændastéttar og nærst á óréttlátri kjördæmaskipan.

Tími Hriflu-Jónasar er liðinn og það verður erfitt fyrir Guðna að endurvekja hlugmyndafræði Jónasar. Þetta sýnir hins vegar vel hvað það hefur verið mikið til í því að kalla Guðna síðasta Framsóknarmanninn.

Það má Guðni eiga að mörg óborganleg gullkorn hafa komið úr munni hans við ýmis tækifæri þegar frábær flutningur hans á umfjöllunarefni hans hverju sinni hafa skapað eftirminnileg augnablik. Á góðum stundum hefur Guðni verið einhver besti tækifærisræðumaður íslenskra stjórnmála.

Þegar maður minnist þess að á safni í Bretlandi má sjá stóra brúðu í líki Winstons Churchills sitja og flytja valda kafla af ræðum sínum dettur manni í hug að einhvern tíma í framtíðinni megi sjá og heyra Guðna fara á kostum á sama hátt.

Þetta gæti átt heima á minjasafni um Framsóknarflokkinn eftir að plássleysið á miðju íslenskra stjórnmála hefur eytt honum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært sig svo mikið inn á miðjuna frá hægri og Samfylkingin inn á miðjuna frá vinstri að Framsóknarflokkurinn lendir í andnauð. 

Hann getur aldrei aftur náð þeim 28 prósentum kjósenda sem honum tókst í stjórnarandstöðu á Viðreisnarárunum.

Auk þess voru Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin að berjast um kjósendur á þessu sama miðjusvæði í síðustu kosningum.

En það er ekki öll nótt úti á þeim miðum miðjukjósenda í stjórnarandstöðu sem nú er hægt að róa á. Það væri hægt að sameina þessa þrjá hópa í einum ef Framsókn lærði af öllum mistökum sínum og breytti um stefnu í stóriðjumálum og kvótamálum. Þá yrði gaman að lifa fyrir afl sem gæti sótt fylgi frá óánægðum kjósendum núverandi stjórnarflokka.

En því miður sýnir Hriflu-Jónasar-hugmynd Guðna Ágústssonar að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Tilvistarkreppu Framsóknarflokksins er því ekki lokið, - því miður, segi ég, -  og á þá við það hve fín stefna endurnýjaðs frjálslyndis- og mannúðarafls á miðjunni gæti orðið. ,

 


Bloggfærslur 10. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband