18.6.2007 | 23:22
ALÞINGISHÚS Á ÞINGVÖLLUM.
Sá kafli þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra sem fjallaði um Þingvelli féll nokkuð í skuggann af ummælum hans um fiskveiðistjórnunina. Ég hef í áratugi undrast að ekki skuli standa Alþingishús á Þingvöllum og að fleiri athafnir þings og stjórnvalda skuli ekki fara fram þar. Á tímum Fjölnismanna var að sjálfsögðu tómt mál að tala um slíkt en nú er samgöngutæknin önnur. Það ætti ekki að vera neitt vandamál að reisa snoturt, - ekki of stórt hús, sem gæti bæði hýst þingsetningu, þingslit og fleiri slíka viðburði í þinghaldinu.
Væri ekki hugsanlegt að húsið væri jafnframt vígt Guðshús þannig að þingsetningarguðsþjónustan færi þar líka fram og jafnvel setning forseta Íslands í embætti? Þingvellir eru helgasti staður landsins. Eftir þá athöfn gæti forseti ekið í skrúðakstri til Reykjavíkur og komið fram á svölum Alþingishússins eins og verið hefur.
Þótt Þingvellir séu frábær umgjörð um hátíðahöld utandyra er hægt að auka mjög á alhliða not staðarins með því að tryggja húsaskjól við athafnir þar sem ekki er mikill mannfjöldi samankominn.
Aðal rökin fyrir því að eiga í hús að venda eru veðurfarslegs eðlis: Það rignir að meðaltali 20 daga í hverjum mánuði á sunnanverðu landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.6.2007 | 11:47
GOTT AÐ STURLA VARÐ EKKI RÁÐHERRA.
Ef Sturla Böðvarsson hefði orðið ráðherra hefði hann ekki getað sagt það sem hann sagði á Ísafirði í gær því að Geir sagði í sinni ræðu:..."ráðherrarnir munu standa þétt að baki sjávarútvegsráðherra við ákvörðun þorskkvótans.".... Davíð hefði ekki þurft að segja þetta til að tryggja að Sturla ekki komist upp með múkk. Þá réði einn vilji, einn foringi. Það er líka gott að gamla stjórnin sat ekki áfram með eins atkvæðis þingmeirihluta, þá hefði enginn stjórnarþingmaður mátt segja neitt.
Sturla ræddi um olíuhreinsistöðvar sem lausn byggðavandans. Á svæðinu frá Snæfellsnesi og hringinn norðurfyrir til Víkur í Mýrdal eru rúmlega þúsund manns á vinnumarkaði. Tvær olíuhreinsistöðvar myndu gefa rúm 2% af vinnuafli þessa svæðis.
Það myndi því augljóslega þurfa miklu fleiri olíuhreinsistöðvar til að leysa vandann og þær myndu keppa við álverksmiðjur um orkuna sem okkur liggur svo mikið á að bruðla með og eyðileggja með því miklu meiri verðmæti sem felast í náttúru landsins.
Enn einu sinni dettur mönnum fyrst og fremst í hug sú "redding" að henda stórverksmiðjum inn í hverja byggð með þeirri orkueyðslu, umhverfisröskun og einhæfni í störfum sem því fylgir og breikkar aðeins menntunargjána milli landsbyggðar og suðvesturhornsins.
Sturla má að vísu eiga það að hann minntist líka á þá lausn sem er ekki eins einföld, að efla samgöngur, fjarskipti, menntun og skapa jarðveg fyrir þau störf sem þurfa á framantöldu að handa í tengslum við ónotaða möguleika í menningu, sögu og náttúru.
Fyrir mig hefðu orð Sturlu um þetta efni alveg dugað fyrir mig til að segja: Sturla, það var gott að þú varðst ekki ráðherra. Haltu svona áfram !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2007 | 01:31
HANN VAR UNGUR OG ÁTTI HEIMA Í BÆNUM...
Já, svona byrjar texti Jóns Sigurðssonar við lag eftir Ragnar Bjarnarson sem hann söng í lok sjötta áratugs síðustu aldar. Ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrsta Bítlalagið, í lúkar í báti í Vestmannaeyjahöfn, - ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði Presley fyrst spilaðan í íslenska útvarpinu, var á þvo upp leirtau fyrir mömmu (konan mín á erfitt með að trúa þessu), - og ég man hvar ég var staddur þegar ég heyrði fyrst spilað lag með Ragga Bjarna, - það var á Melavellinum 1954 og lagið var "Í faðmi dalsins."
Af hverju man ég þetta? Vegna þess að í öll skiptin kvað við nýjan tón sem maður hafði ekki heyrt áður, - það var eitthvað á seyði sem boðaði nýja tíma. Og sú varð raunin í öll skiptin.
Þá var Ragnar "ungur og átti heima í bænum" og framundan var einstakur ferill sem nú hefur náð hámarki.
Það er ekki bara vegna einstaks hlutverks meðal þjóðarinnar í meira en hálfa öld sem Ragnar er einstaklega vel að þessum verðlaunum kominn heldur ekki síður vegna þess að leitun er að listamanni sem hefur risið til nýrra hæða eftir sjötugt eins og Ragnar hefur gerst síðustu árin.
Það þarf svolítið til að til manns komi tíu ára drengur og segi við mann: "hey, þú, - þekkir þú kallinn með hendina?"
Fyrir aðeins fjórum árum bað Fréttablaðið hóp helstu kunnáttumanna um dægurlagasöng að nefna bestu slíka söngvara hér á landi frá upphafi.
Listinn sem út úr þessu kom var langur, - með Ellý, Hauk, Vilhjálm Vilhjálmsson, Bubba og fleiri efst á listanum. Ótrúlegustu söngvarar voru nefndir á þessum langa lista, - meira að segja Jón Ólafsson á Bíldudal og ég!
En einn söngvari komst ekki inn á listann, - Ragnar Bjarnason. Ég man að það fauk í mig og mig blóðlangaði til að hella mér yfir þetta með blaðagrein en þetta gerðist einmitt þá daga sem mest gekk á vegna gerðar myndarinnar "Á meðan land byggist" og því komst ég aldrei til þess.
Mig langaði til að spyrja: Var það bara misskilningur þjóðarinnar að þeir Haukur Morthens og Ragnar Bjarnason bitust um að vera á toppnum á árunum eftir 1955 og að Ragnar hafði oftast betur?
Getið þið nefnt söngvara sem getur sungið jafnvel jafnólík lög og Vorkvöld í Reykjavík, Kokkur á kútter frá Sandi, Vor við Flóann, Vertu ekki að horfa, Barn?
En það þurfti ekki að fara að rífast í þessu. Ragnar sá um þetta sjálfur á svo glæsilegan hátt að eftir verður munað. Síðustu árin hefur þjóðin fylgst með því hvernig hann hefur hafist í hærri hæðír en nokkru sinni fyrr, kominn á áttræðisaldurinn.
Það voru ákveðin tímamót á sínum tíma þegar Gunnar Þórðarson fékk fyrst listamannaverðlaun, - viðurkenning á því að listsköpun getur blómstrað á mjög ólíkum sviðum.
Viðurkenning á framlagi Ragnars er frábært dæmi um þetta og besta orðið yfir tilfinninguna í tilefni af þessu er sumargleði bæði með litlum og stórum staf.
Ég segi því við Ragnar eins og okkur er tamt að ávarpa hvor annan: Innilega til hamingju, elsku drengurinn!
![]() |
Raggi Bjarna er borgarlistamaður Reykjavíkur 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)