SÓMI AKUREYRAR OG SKÖMM REYKJAVÍKUR.

Fyrsta flug á Íslandi fór fram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Vagga flugsins varð þar aftur upp úr 1930 og síðan eftir stríð. En í Reykjavík er ekkert gert til að minna á þetta. Á flugvellinum stendur gamli flugturninn en úr honum var stjórnað stórum hluta orrustunnar um Atlantshafið, einnar mikilvægustu orrustu stríðsins. Það stefnir í að turninn verði rifinn og hann grotnar niður. Í hvaða nágrannalandi okkar sem væri hefði verið sett upp minjasafn í turninum þar sem hægt væri að sjá eftirlíkingu af starfseminni þar í stríðinu og þar væri krökkt af ferðamönnum á sumrin.

En hér er ekkert gert. Ekkert minnismerki er við nýju Hringbrautina þar sem stendur: "Hér fór fram fyrsta flug á Íslandi." Gamlir munir frá flugvellinum eru flestir týndir og tröllum gefnir.

Þó eru nokkrir þeirra varðveittir, en ekki í Reykjavík, - nei nánast eins langt úr alfararleið og hugsast getur, í minjasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!

Þar er líka varðveitt sjóskýlið úr Vatnagörðum, stórmerk bygging frá Reykjavík, full af flugsögu.

Flugminjasafn Íslands hefði átt að vera risið í Reykjavík fyrir langa löngu. En í staðinn er risið myndarlegt Flugsafn Íslands á Akureyri.

Sem bornum og barnfæddum höfuðborgarbúa rann mér til rifja hvernig hugsað er um flugsöguna í höfuðborginni þegar ég var fyrir norðan á flughelgi í dag, en fylltist jafnframt djúpri virðingu og þakklæti til byggðarlags, sem er tíu sinnum fámennara en höfuðborgarsvæðið og bjargar því sem bjargað verður á þessu sviði. 

Flugsafn Íslands á Akureyri er norðanmönnum til mikils sóma sem rétt er að halda á lofti. Og þeir sem standa að minjasafninu á Hnjóti geta líka verið stoltir af sínum hlut.  


Bloggfærslur 23. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband