27.6.2007 | 18:58
SVIPAÐUR VIÐSNÚNINGUR OG 2002 ?
Mér er minnisstætt hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veitti mér ítrekaðar ákúrur í umræðuþætti fyrir það að halda fram nauðsyn umhverfisframboðs sem veitti Samfylkingunni aðhald. Í dag segir hún í viðtali að stjórnvöld muni ekki skipta sér af virkjanaáformum en það er þvert á yfirlýsingar hennar fyrir kosningar um hið gagnstæða og það að ítarlegar rannsóknir á verðmæti náttúru Íslands þurfi á meðan margra ára hlé verði tekið í stóriðjuframkvæmdum.
Þetta minnir óþægilega á algeran viðsnúning meginþorra þingmanna Samfylkingarinnar 2002 varðandi Kárahnjúkavirkjun. Vonandi fer ekki eins á næstu árum og þá.
Vísa til næsta bloggs míns á undan þessu bloggi, en það fjallar um fáfræðina, eina helstu forsendu stóriðjustefnunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2007 | 01:24
STEFNAN SEM HEFUR FÁFRÆÐI AÐ FORSENDU.
Var að koma úr þriggja daga ferð um Kárahnjúkasvæðið og svæðið norðaustan Mývatns, - svæði sem stóriðjustefnan elskar að fólk viti sem minnst um, - helst ekki neitt. Töfrafoss, Hraukar og Gjástykki eru þar á meðal. Við Friðþjófur Helgason sigldum á Örkinni upp hinn nýja Kringilsárvog í Hálslóni, þar sem áður var Stuðlagátt, - að Töfrafossi og einnig sunnar að Hraukunum sem hvort tveggja er að sökkva.
Og hvað með það? Var ekki allt umtalið um Eyjabakka út af götu í Breiðholtinu, eins og Davíð orðaði það. Hraukar hvað?
Jú, í bátsferðum okkar undanfarið höfum við fylgst með þeim hluta Hraukanna, sem liggja niður vesturhlíð Hjalladals og sökkva hratt og örugglega. Hraukar eru fyrirbæri sem bara eru til við Eyjabakka og Kringilsárrana.
Sá hluti Hraukanna, sem nú er verið að sökkva, eru þeir einu í heiminum sem liggja svona í brekku. Afsakið, voru þeir einu í heiminum.
Í einni af greinargerðunum um Kárahnjúkavirkjun var sagt að hjallarnir og aðrar einstæðar jarðmyndanir í Hjalladal yrðu "varðveittir" í Hálslóni.
Hið sanna blasir við: Aldan í lóninu étur bæði hjallana og Hraukana í sundur á ótrúlega magnaðan hátt.
Í siglingunum upp að Töfrafossi hafa blasað við brekkur gilsins fyrir neðan fossinn, þaktar þykkum grænum og blómskrýddum gróðri að mestu.
Í blaðagreinum um virkjanamálin er reyndar tönnlast á því að verið sé að sökkva "eyðisöndum", - stóriðjustefnan nærist líka á því að endurtaka sömu lygina nógu oft.
Núna hefur verið einstætt tækifæri til að sjá stóra og kröftuga foss í síðasta sinn með sínu ósnortna umhverfi. Næsta vor verður hann að vísu sýnilegur snemmsumars áður en lónið kemst að honum og drekkir honum, en þá verða brekkurnar þaktar eðju úr Jöklu og leirfok úr þeim ef hreyfir vind.
Sem sagt, - sýn sem aðeins er hægt að sjá einu sinni og hvorki fyrr né síðar. Mikil umferð ferðamanna? Nei, ekki kjaftur enda er allt samgöngukerfið nú á þann veg á því svæði Brúardala sem liggur að vesturbakka Hálsóns í að kerfi vega og slóða er að mestu ónothæft.
Hálslón hefur drekkt slóðinni sem lá yfir Sauðá að Töfrafossi og engin verið gerð í staðinn. Að vísu er til slóð sem notuð var í nokkra áratugi á síðustu öld sem aðalleiðin um Brúardali og lá um svonefndan "flugvöll" sem svo var kallaður en varð að tilefni kærumáls nokkrum dögum fyrir síðustu kosningar.
Ég sá úr flugvél í dag stikur á þessari einu slóð sem hugsanlega er hægt að fara að vesturbakka Hálslóns en um hana ríkir fáfræðin ein. Enda langbest að sem minnst sé vitað um það sem þarna getur að líta, jafnvel þótt að aldrei verði aftur hægt að sjá þessi fyrirbæri.
Ég skoðaði virkjanasvæðið fyrir austan og norðaustan Mývatns í dag úr lofti og tók loftmyndir. Á þessu svæði urðu fjórtán hraungos á níu árum 1975 - 1984 og af þeim er til mikið af mögnuðum kvikmyndum.
Ef þetta svæði væri í Ameríku væri búið að nýta sér þetta til hins ítrasta fyrir ferðamenn, enda á svæðið, gosin, myndefnið og sagan sér enga hliðstæðu í heiminum. Þjóðina órar ekki fyrir því hvað virkjanafíknin á eftir að hafa í för með sér þarna og ég verð tímans vegna að geyma það að greina nánar frá því.
Því miður er þetta svo vita vonlaust hjá mér að ætla sér að reyna að miðla einhverri þekkingu um þetta í tíma, - hraði stóriðjulestarinnar er meiri en svo og virkjanasvæðin svo mörg.
Þegar er búið að veita rannsóknarleyfi í Gjástykki og reynslan af rannsóknarborholum frá Trölladyngju og Sogunum lofar ekki góðu.
En um þetta svæði gildir það sama og gilt hefur um virkjanframkvæmdir stóriðjustefnunnar að forsenda þess að hún hafi sinn framgang er að almenningur viti sem minnst um virkjanasvæðin og helst ekki neitt.
Nú er hádegi, 27. janúar, og ég hef fengið mjög athyglisverða athugasemd sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa, svo og andsvar mitt við henni. Það varpar kannski enn skýrara ljósi á það sem ég hef bloggað hér að ofan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)