RÆTIN ÁRÁS Á STARFSHEIÐUR, BYGGÐ Á UPPSPUNA.

Í netgrein 19. júní fullyrðir Snorri Zophaníasson að ég hafi viljandi og hvað eftir annað laumað á sínum tíma inn í sjónvarpsfréttir röngum myndum af því svæði sem sökkva átti undir lón Norðlingaölduveitu í því skyni að koma inn hjá þjóðinni ranghugmyndum um það land sem ætti að sökkva. Þetta er óvenjulega rætin árás á starfsheiður minn og fréttastofu Sjónvarpsins, einkum vegna þess að myndskeiðin, sem Snorri talar um, voru þau einu réttu og þau einu sem voru til og birtust í fjölmiðlum á sama tíma og aðrir fjölmiðlar birtu rangar myndir. 

Ég fer þess á leit við Snorra að hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar á þeim opinberlega vegna þess að hann birti þau opinberlega í vefmiðli sem er ígildi dagblaðs. Ef hann gerir það ekki verður hann eins og sannur vísindamaður að birta gögn sem sanna fullyrðingar hans og ásakanir um alvarlegt brot mitt í starfi. 

Ég vil trúa því að uppspuni hans byggist á misskilningi eða misminni og það ætti að vera auðvelt fyrir hann að nálgast rétt gögn til að leiðrétta ranghugmyndir sínar.

Þessi gögn eru mjög aðgengileg. Sumarið 2002 fjallaði ég "hvað eftir annað" eins og Snorri orðar það um úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu og þær fréttir eru til í safni Sjónvarpsins. ´

Ég byrjaði að fjalla um úrskurðinn rétt áður en hann féll og gerði það síðan ítrekað næstu daga meðan málið var heitt og aðalfréttin í fjölmiðlum.

Þegar þessar fréttir Sjónvarpsins eru skoðaðar sést ótvírætt að eini fjölmiðillinn sem sýndi nokkrar myndir af lónstæðinu og einu réttu myndirnar var Sjónvarpið. Þessar myndir sýndu bæði gróðurlendið sem sökkva átti sem og þann hluta áreyra og farvegar Þjórsár sem fara myndi undir vatn.  

Einnig sýndi Sjónvarpið einu kvikmyndirnar sem til eru, svo vitað sé, af fossunum neðan við Norðlingaöldu sem veitan myndi hafa áhrif á.

Fyrr um sumarið hafði ég farið á eigin kostnað á landi upp í Eyvafen og þann hluta Tjarnarvers sem fara átti undir lónið, auk þess hluta Þjórsár sem Norðlingaölduveita myndi hafa áhrif á. Enginn fjölmiðlill hafði þá tök á eða nægan áhuga á að gera slíkt.

Við fórum akandi upp eftir á tveimur bílum, ég og Jóhann Ísberg ljósmyndari. Þar tók ég einu kvikmyndirnar sem til eru af þessu svæði og fór einnig fljúgandi yfir það á eigin kostnað og tók kvikmyndir af því, einu loftmyndirnar sem birtar hafa verið.

Engin stofnun eða fyrirtæki virðist hafa lagt í það að taka slíkar myndir og segir það sína sögu um ástand upplýsingamiðlunar í mörgum mikilsverðum umhverfis- og virkjanamálum á Íslandi.

Þegar aðrir fjölmiðlar birtu myndir með fréttum sínum notuðu þeir þær gamlar myndir sem þeir áttu af Þjórsárverum og voru teknar mun ofar í verunum og enginn annar miðill fjallaði um áhrifin á Þjórsá.

Ég efast ekki um að Snorra hafi eins og mér ekki líkað sú myndbirting en hún byggðist vafalaust á vanþekkingu viðkomandi blaða- og fréttamanna á staðháttum og hefur áreiðanlega ekki verið viljandi.

En í stað þess að gera við þetta athugasemdir opinberlega þá, kýs Snorri að bíða í fimm ár og snúa þessu öllu núna upp á eina fjölmiðlamanninn sem sýndi rétt gögn varðandi þetta mikilsverða mál og hnykkir á ummælum sínum með mjög rætinni ásökun um siðlausar rangfærslur mínar í fréttaflutningi þeirrar fréttastofu landsins, sem skoðanakannanir sýna að nýtur mests trausts.  

Landsvirkjun sendi fjölmiðlum aðeins loftmyndir af öllu virkjanasvæðinu teknar mjög hátt úr lofti sem gáfu enga mynd af því gróðurfari sem um ræddi í lónstæðinu.

Hér fyrir neðan fer orðréttur pistill Snorra um þetta með leturbreytingum mínum:

Það er ekki góður fréttaflutningur þegar fólk byggir hugmyndir sínar á misskilningi sem hefur viljandi verið laumað inn. Ómar Ragnarsson sýndi hvað eftir annað myndskeið af gróðurlendinu í Þjórsárverum á meðan hann fjallaði um Norðlingaölduveitu og lón hennar í sjónvarpsfréttum. Niðurstaðan er sú að stór hluti þjóðarinnar heldur að þar hafi verið sýnt land sem ætti að sökkva. Það er ekki rétt og stóð ekki til að spilla að neinu marki því sérstæða votlendi sem jafnan er vísað til í umræðunni." 

Fyrrnefndar fullyrðingar Snorra voru, eins og áður sagði, birtar á opinberum vettvangi fjölmiðils sem er ígildi dagblaðs. Þær eru því opinberar og ekkert einkamál okkar Snorra, enda hafði hann ekkert samband við mig áður en hann birti uppspuna sinn og ásakanir um siðlausar rangfærslur mínar sem vonandi eru byggðar á hans eigin misskilningi eða misminni.

Þess vegna er það sjálfsögð krafa að hann leiðrétti mistök sín og biðji mig og fréttastofu Sjónvarpsins opinberlega afsökunar á þeim.

Fram að þessu hef ég ekkert annað en gott að segja af kynnum mínum og samskiptum við Snorra og er reiðubúinn að sýna því skilning ef misminni hans hefur leitt hann á villigötur eins og komið getur fyrir hjá okkur öllum.

En vísindamaður eins og hann hlýtur að hafa það er sannara reynist og taka undir þá kröfu að rétt skuli vera rétt.


Bloggfærslur 28. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband