LENGDARGJALDIÐ ENN OG AFTUR.

Síðustu misseri hef ég kynnt hugmyndir um svonefnt lengdargjald af farartækjum þar sem eigendur þeirra borguðu hlutfallslega fyrir afnot sín af gatna- og vegakerfinu. Íslandshreyfingin er eini flokkurinn sem hefur slíkt gjald á stefnuskrá sinni. Þetta er ekki skattur heldur það eitt að menn borgi fyrir afnot sín af vegakerfinu í hlutfalli við afnot. Ég tók sem dæmi umferðina um Miklubrautina.

100 þúsund bílar aka um Miklubraut á hverjum degi og væri helmingur þeirra tveimur metrum styttri myndi losna 100 kílómetra rými á þessari einu götu á hverjum degi, rými sem annars væri þakið bílum.

Fólk virðist hafa átt erfitt með að átta sig á þessu en um síðustu helgi blasti þetta ljóslega við þegar 80 kílómetra bílarröð myndaðist frá Hvalfjarðargöngum að Kambabrún.

Í þessari bílaröð voru ekki aðeins bílar í langferð heldur líka bílar sem á þessum vegaköflum eru nánast í innanbæjarumferð, því að nú orðið má skilgreina Mosfellsbæ og Hveragerði sem úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.

Meginhluti bílanna var ekki með tjald- eða húsvagna í eftirdragi og sjá má á hverjum degi að stór hluti bíla sem ekið er í umferð innan höfuðborgarsvæðisins er alltof  stór miðað við not.

Í borgarumferð eru aðeins 1,1 manneskja um borð í hverjum bíl og augljóst að ekki þarf 5-6 metra 2ja til 3ja tonna dreka til þess að flytja 100 kíló af mannakjöti.

Það er sanngirnismál að menn borgi fyrir afnot af rándýrum samgöngumannvirkjum í samræmi við það hve mikið rými þeir taka í vegakerfinu.  

Í Japan hefur í bráðum hálfa öld verið notað skattakerfi sem miðast við ákveðna lengd og breidd bíla, - nú er þetta takmark 3,40m á lengd og 1,48 á breidd.

Íslenskt kerfi gæti verið mun sveigjanlegra og betra, aðeins yrði tekið gjald af hverjum sentimetra sem bíllinn er lengri en 3 metrar.

Það myndi þýða að Smart-bílarnir yrðu gjaldfrjálsir og minnstu bílarnir með tiltölulega mjög lágt gjald.

Þessir 4-5 sæta bílar, svo sem Toyota Aygo/Citroen C!/ Peugeot 107 og Fiat Seicento eru fullboðlegir til meira en 90 prósenta af erindagerðum nútímafólks.

Lengdargjaldið ætti ekki að verða viðbót við álögur á bíleigendur heldur þyrfti að endurskoða gjaldakerfið í heild sinni.

Lengdargjaldið myndi stuðla að minni mengun og eldsneytis- og rekstrarkostnaði bílaflotans.

Ég hef ekki enn heyrt rök fyrir því að hvaða leyti það gæti talist ósanngjarnt.


Bloggfærslur 29. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband