4.6.2007 | 13:15
HINN LEYNDI SANNLEIKUR KÁRAHNJÚKAVIRKJUNAR
"Afhendingu rafmagns Kárahnjúkavirkjunar seinkar meira en talsmenn Landsvirkjunar hafa sagt fram að þessu." Þetta er pen lýsing í útvarpsfrétt á þeim blekkingarleik sem viðhafður hefur verið til að fela fyrir þjóðinni hvers eðlis þessi endemis virkjun er og helst að láta sem minnst af því leka út fyrir kosningar. Upplýsingarnar um töfina eru hins vegar ekki endanleg sannindi um málið því að löng þrautaganga er framundan fyrir þá sem reyna eins lengi og unnt er að neita að horfast í augu við hinn bitra sannleika sem á eftir koma í ljós.
Öllu þessu var spáð í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" fyrir þremur árum og meira mun á eftir koma.
Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" í fyrra var vitnað í greinargerð lögfræðings Landvirkjunar um það hve áhættusöm framkvæmdin er. Eitt af því var að virkjunin er "eyland í raforkukerfinu" án þess að því væri lýst nánar.
Það felst meðal annars í því hve lítið þarf útaf að bregða til að álverið og þar með Landsvirkjun verði fyrir stórtjóni ef eitthvað bregður út rafmagnið bregst.
Í febrúar í fyrra fékkst játning stjórnanda rannsókna jarðfræðirannsókna um það að því var alveg sleppt að kanna misgengiskaflann fyrirfram þar sem vandræðin hafa verið mest. Talsmaður virkunarinnar lýsti því síðan svo dásamlega vel hvers vegna því var sleppt: "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð er."
Já, íslenskir ráðamenn ákváðu fyrir sex árum að fara út í þessa fráleitu framkvæmd, sama hvað það kostaði. Þeir vissu að þegar öll kurl kæmu til grafar stæði þjóðin frammi fyrir orðnum hlut, - og þeim var það ekki nóg að stefna að því að verða á bak og burt þegar þetta kæmi allt fram, heldur tryggðu þeir sér sjálfum þar á ofan sérkjör með eftirlaunafrumvarpinu illræmda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)