7.6.2007 | 13:51
AFGLÖP Í SAMNINGUM.
Komið er fram að orkuverð á sameiginlegum markaði Norðurlandanna muni líklegast hækka um 40 prósent á næsta ári, úr 2,10 kr í 3 krónur íslenskar á kílóvattstundina. Á sama tíma er upplýst að Orkuveita Reykjavíkur semji um 2,10 krónur til álvers í Helguvík. Það gefur til kynna hvert tjón óðagotsstefnan í orkumálum muni valda Íslendingum. Erlendis hækkar verðið um 40 prósent vegna umhverfisskatta og mengunarkvóta en við verðum áfram með orkuna á útsöluverði.
Hér er verið að semja af sér um 15 milljarða króna alls. Hvað liggur svona mikið á? Ef álverin treysta sér ekki til að borga hækkað orkuverð bíða erlend hugbúnaðarfyrirtæki í biðröð eftir því að kaupa orkuna á réttu verði fyrir mengunarlausa starfsemi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.6.2007 | 00:26
GETUR EYJÓLFUR HRESST EFTIR SVONA FARSA?
"Hver veit nema Eyjólfur hressist?" er gamalt viðkvæði þegar illa gengur en öll von er kannski ekki enn úti. Var að koma seint í kvöld beint frá Kárahnjúkum og kveikti á Sýn án þess að hafa fylgst með neinu í dag. Sá Íslendinga sprikla dálítið í sókninni gegn Svíum í stöðunni 1:0 en á næstu mínútum tók við einhver mesti farsi sem ég hef séð síðan í 14:2 leiknum fræga, - Svíar skoruðu fjögur mörk á þessum stutta tíma og síðasta markið þeirra á sér engan líka í þeim fræga 14:2 leik og sennilega ekki í íslenskri landsleikjasögu.
Fyrsti landsleikurinn í mínu minni sem bauð upp á svipaða upplifun var rigningarleikurinn við Dani 1955. Ég minnist þess enn hve spældir allir voru eftir 0:4 úrslit þar sem Albert og Ríkharður, tveir af bestu leikmönnum Íslandssögunnar sáust varla.
Síðan kom leikur danska landsliðsins við Reykjavíkurúrval sem burstaði Danina 5:2. þar sem Hreiðar Ársælsson fór hamförum í vörninni. Það var enginn slíkur íslenskur varnarmaður í Svíaleiknum í dag.
Mörkin fjögur í landsleiknum við Dani 1955 dreifðust þó á leikinn. Í Svíaleiknum í dag komu fjögur á tíu mínútum, hraðar en nokkur fjögur mörk í 14:2 Danaleiknum 1967.
Hressist Eyjólfur eftir þetta ofan á Lichtensteinklúðrið og almennt slen í síðustu landsleikjum? Ég er farinn að efast um það.
Þetta er dapurlegt. Sami Eyjólfur skoraði eitt mesta glæsimark íslenskrar knattspyrnusögu fyrir fullum leikvangi í París gegn frönsku heimsmeisturunum á einhverju frábærasta augnabliki íslenskrar íþróttasögu.
Það tekur enginn af Eyjólfi hve magnaður leikmaður hann var. En það er ekki það sama og að njóta gengis sem þjálfari. Því miður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)