9.6.2007 | 11:21
SÖNN OG EINLÆG ÁLGLEÐI
Það er mikið tilefni til gleði álfurstanna á Íslandi þessa dagana. Alcan borgar fjórðung af orkuverði nágrannalandanna, Alcoa hefur fengið vilyrði um álver á Bakka til að tryggja að íslendingar muni bæta upp töf á orku frá Kárahnjúkavirkjun. Mikið sjónarspil er á Reyðarfirði í dag þótt raforkan nægi aðeins til lítils hluta af framleiðslunni enda dýrt og óhagkvæmt að búa til rafmagn í hverfli sem fær rafmagn leitt í sig með hundi úr byggðalínu í stað vatnsorku.
Á meðan lífríkinu er drekkt og stækkandi Hálslón kæfir raddir vorsins uppi við Kárahnjúka gleðja töframenn börnin á Reyðarfirði og þar er skálað og haldnar ræður. "The show must go on."
Orkuveita Reykjavíkur fer létt með að gera orkusölusamning sem borgar virkjunina ekki upp í stað þess að hinkra í eitt ár og nýta sér 40 prósent hækkun orkuverðs í nágrannalöndunum.
Ætla má að mismunurinn á þessu umsamda orkuverði og því sem hefði getað orðið síðar nemi alls um 15 milljörðum króna en það eru smápeningar í stóriðjukapphlaupinu.
Tveimur dögum fyrir kosningar var veitt rannsóknarleyfi í Gjástykki sem mun tryggja næg umhverfisspjöll líkt og gerðist við Sogin hjá Trölladyngju, þannig að það verður bara formsatriði að setja þar upp virkjun.
Þjóðin nærist á fáfræði um þau ótrúlegu náttúruspjöll sem í vændum eru fyrir austan og norðaustan Mývatn.
34 beiðnir um rannsóknarleyfi liggja fyrir. Jakob Björnsson skrifar heila opnu í Morgunblaðinu um að það standi í Biblíunni að Íslendingum beri skylda til að virkja allt sem virkjanlegt er fyrir álver upp á 2,5 milljóna tonna ársframleiðslu.
Geir H. Haarde hafði viðrað svipaða hugsun í Silfri Egils og heldur nú væntanlega fjálglega ræðu um það á Reyðarfirði hvernig þessi framtíðarsýn muni leysa vandann í atvinnumálum á Íslandi.
Sú "lausn" felst í því að við álver uppá 2,5 - 3,0 milljóna tonna ársframleiðslu vinni um 2% af vinnuafli þjóðarinnar!
Í viðtali á Stöð tvö komst talsmaður Alcoa auðveldlega upp með það að segja að aðeins séu notuð koltrefjaefni í nokkrar stórar flugvélar. Hið rétta er að vinsælasta einkaflugvél heims er nú úr slíkum efnum sem eru að ryðja álinu burtu.
Hann komst líka upp með það að segja að mest af framleiðsluaukningu áls fari í bíla, en það er alrangt.
Mest af framleiðsluaukningunni fer í áldósir og umbúðir sem Bandaríkjamenn henda í stað þess að endurvinna.
Sú umbúðanotkun ein samsvarar endurnýjun alls flugflota Bandaríkjamanna fjórum sinnum.
Stóriðjustefnan er sprelllifandi. Steingrímur J. gaf í stjórnarmyndunarörvæntingu grænt ljós á Helguvík ef ekki líka Bakka ef Sjálfstæðismenn vildu fara í stjórn með VG.
Ekki er orð í stjórnarsáttmálanum um að hætt verði við Norðlingaölduveitu, Grændal eða Neðri-Þjórsá.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og fleira gott fólk í núverandi stjórnarsamstarfi þarf á miklum styrk og stuðningi að halda til að standast þá áraun sem stóriðjuóðagotið veldur. Bara að Þórunn standi sig jafnvel og hún gerði í Kárahnjúkamálinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)