STÓRIÐJU Í HVERN FJÖRÐ!

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefur nú komist að sömu niðurstöðu og verið hefur aðal röksemd stóriðjusinna um árabil: Stóriðja er eina lausnin í atvinnumálum landsbyggðarinnar, reynslan sýnir að ekkert annað er framkvæmanlegt. Þegar þessi niðurstaða er krufin til mergjar sést að hún er byggð á vanþekkingu og viljaleysi.

Halldór segir að náttúruverndarsinnar hafi boðið Vestfirðingum upp á þá lausn að leysa vandann með því að auglýsa Vestfirði sem eina stóriðjulausa landsfjórðunginn, nátturuverndarsinnar hafi boðið upp á nokkur hundruð störf við þetta en ekki getað skapað eitt einasta.

Ástæða þess að ekki var hægt að uppfylla "loforðið" var tvíþætt:

1. Það það þarf peninga til að skapa peninga.

Íslenska þjóðin varð að eyða 130 milljörðum króna og fá erlendan aðila til að eyða 100 milljörðum í viðbót til þess að reisa risavirkjun sem verður í  raun rekin með tapi og til frambúðar aðeins lítilsháttar fólksfjölgun í næsta nágrenni álverksmiðjunar en fólk og fjármunir sogað frá öðrum byggðum á Austurlandi.  

Náttúruverndarsinnar hefðu getað gert sitthvað við 230 milljarða króna í til að frjámagna nýja möguleika á Vestfjörðum sem gætu gefið aðra atvinnu en störf í mengandi stórverksmiðjum.

En þessa peninga höfðu náttúruverndarsinnar ekki og enginn hefur lýst því betur en Kristinn H. Gunnarsson hvernig Vestfirðir hafa verið sveltir af stjórnvöldum í þessu efni. Í eldhúsdagsumræðu sagði hann að með sama áframhaldi þyrftu Vestfirðingar 2000 ár til þess að fá í sinn hlut jafn mikið fé og ausið var í Austfirðinga.

2, Við núverandi aðstæður eru Vestfirðir sá landshluti sem hvað erfiðast er að markaðsetja sem ferðamannasvæði. Samgöngur við svæðið eru þær langverstu á landinu og fjórðungurinn afræktur með það að erlendir ferðamenn komist þangað með skaplegum hætti frá Keflavíkurflugvelli.

Í nýlegri bók sem inniheldur 100 mestu undur veraldar eru aðéins sex náttúrufyrirbrigði í Evrópu á lista.

Fremst í bókinni eru tvö þessara undra: 1. Norsku firðirnir. 2. Hinn eldvirki hluti Íslands.

Tvennt vekur athygli í sambandi við þetta:

1. Vestfirðír, Tröllaskagi og Austfirðir eiga ofjarl þar sem eru norsku firðirnir.

2. Það er hinn eldvirki hluti Íslands, samspil elds og íss, sem er einstæður og það sést best á því að í Norður-Ameríku er mikill fjöldi náttúrufyrirbæra sem kemst á listann samt kemst frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, ekki á listann. Hvers vegna? Vegna þess að hann kemst ekki í hálfkvisti við hinn eldvirka hluta Íslands.

Til að "selja" hlut þarf tvennt: Hann þarf að vera sá besti, vera einstakur, og það þarf að kynna hann.

Hinn eldvirki hluti Íslands er einstakur en vegna stóriðjufíknar er í raun leitast við að fela þetta mikla verðmæti til þess að geta sagt að svo fáir hafi séð það eða viti á því deili að það skipti ekki máli.

Það nöturlegasta við þetta allt er það að Vestfirðir, sem eru sá landshluti sem erfiðast á að keppa við ofjarla sína í nágrannalöndunum, er sá landshluti þar sem vatnsaflsvirkjanir yllu minnstu umhverfisspjöllum á landinu og að þess vegna hefði fyrsta álverið átt að rísa þar!

Meint "tilboð" náttúruverndarsinna byggðist á ónógri þekkingu á verðmætunum sem málið snerist um.

Halldór segir að nú sé fullreynt að aðeins stóriðja geti bjargað byggð á Vestfjörðum. Það er auðvelt að segja þetta þegar fyrir liggur að engu hefur mátt kosta til til þess að markaðssetja það sem "selja" á.

Það er nefnilega þrátt fyrir allt ekki rétt að Vestfirðir eigi enga möguleika í ferðamennsku.

Ég minntist áðan á nauðsyn þess að bjóða eitthvað einstakt. Á ferð minni um vesturströnd Írlands komst ég að því að Írar auglýsa fuglabjarg eitt sem hið stærsta í Evrópu og græða á því drjúgan skilding.

Á Vestfjörðum eru þrjú miklu stærri fuglabjörg en það er dæmi um hve lítið menn gera með þessi verðmæti að nýlega var flugbraut Patreksfjarðarflugvallar, sem  liggur næst Látrabjargi, stytt úr 1400 metrum niður í 800 metra og þar með tryggt að nýjasta flugvél flugfélagsins Ernis gæti ekki notað hana!

Sagnaslóðir og tengsl Vestfirðinga við sjóinn, sérstæð menning Vestfirðinga, eru líka atriði sem vert væri að huga að.

En ekkert af þessu þykir brúklegt. Nei, nú er farið vík úr vík og fjörð úr firði til þess að leita að stöðum fyrir stóriðju Vestfirðinga, olíuhreinsistöðvar.

Ekkert er skeytt um það hvort til sé kvóti samkvæmt Kyoto-samkomulaginu til þess arna, - nei við segjum okkur bara frá því samkomulagi ef þurfa þykir, - annað eins hefur nú verið gert.  

Að lokum má benda á dæmi um hugmyndir sem þóttu fáránlegar fyrir 15-20 árum og þeir menn taldir skýjaglópar sem héldu þeim fram: Hvalaskoðun frá Húsavík, gljúfrasiglingar í Jökulsám Skagafjarðar og Vesturfararsetur á Hofsósi.

Ekkert af þessu þrennu er meðal 100 merkustu undra heims og enginn skilningur var hjá stjórnvöldum við þær en samt urðu þær að veruleika.


Bloggfærslur 17. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband