2.7.2007 | 00:01
VITUNARVAKNING Á HEIMASLÓÐUM.
Tveir ánægjulegir atburðir gerðust í gær og því miður var aðeins hægt að vera viðstaddur annan þeirra. Vegna tengsla minna við stofnun samtakanna Sólar á Suðurlandi varð Urriðafoss fyrir valinu en hinn staðurinn var Álafosskvosin. Ég minnist þess ekki að nein völvuspá hafi minnst á svona atburði og menn hefðu látið segja sér það tvisvar fyrir aðeins hálfu ári að þetta myndi gerastnú.
Ekki mun af veita að veita viðnám á þessa dagana þegar fleiri og örari fréttir af stóriðjupressunni gerast en nokkru sinni fyrr og ráðherrar Samfylkingarinnar vilja hvergi nærri koma, þvert ofan í digurbarkalegar yfirlýsingar fyrir kosningar.
Fyrir tveimur árum ferðuðumst við Helga um Norður-Svíþjóð til að kynna okkur hliðstæð mál þar. Frægasti fossinn sem eftir lifir í Norður-Svíþjóð er Storfossen og Svíar gera mikið með hann. Hann er þó ekkert merkilegri en Urriðafoss og myndi vera kallaður flúðir hér á landi.
Þetta ætti fólk að gera sér ljóst þegar það reynir að gera lítið úr vatnsmesta fossi landsins og afgreiða mótmælendur við Álafoss sem kverúlanta.
Sem betur fer eru svona aðgerðir mikilsverð atriði í æskilegu íbúalýðræði en þó má ekki gleyma því að það er hvorki einkamál heimafólks á hverjum stað, hvort sem það er í Reykjavík eða fyrir austan fjall, né heldur einkamál Íslendinga, hvernig við förum með ómetanleg náttúruverðmæti landsins sem okkur hefur verið falin umsjá fyrir afkomendur okkar og mannkyn allt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)