FERÐAMENN OG ÁLVER, - ÓJAFN LEIKUR.

Morgunblaðið og fleiri fjölmiðlar hafa dregið upp dökka mynd af þeirri vá sem íslenskri náttúru stafar af ágangi ferðamanna og lagt það að jöfnu við virkjanaframkvæmdir. Á þessu tvennu er þó mikill munur. Kárahnjúkavirkjun veldur mestu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrifum sem möguleg eru á þessu landi en án virkjunar hefði verið hægt að fá út úr því svæði meiri tekjur með hverfandi umhverfisáhrifum.

Ef svæðið þar sem virkjunin er hefði verið sett á heimsminjaskrá og aðeins broti af því fé sem eytt hefur verið í virkjunina notað til þess að auglýsa og markaðssetja svæðið sem ferðamannasvæði hefði verið hægt að frá af því meiri tekjur og bæta ímynd og orðspor lands og þjóðar í stað þess að að standa að þeirri miklu eyðileggingu náttúruverðmæta sem þarna á sér stað.

Eftir að hafa farið um Hjalladal gangandi, fljúgandi og siglandi get ég fullyrt að hægt hefði verið að hafa í dalnum meira 100 kílómetra langa göngustíga í þremur mismunandi hæðum yfir dalbotninum þar sem ferðamaðurinn hefði getað séð einstæð listaverk og ótrúleg afköst Jöklu.

Tíu dögum fyrir drekkingu dalsins uppgötvaði ég að á botninum tók sköpunargleði Jöklu öllu fram sem hægt er að taka til samaburðar í heiminum.

Í þjóðgörðum erlendis má sjá hvernig höfð er fullkomin stjórn á umferð milljóna ferðamanna án þess að þeir valdi óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Þetta er hægt með því að þaulkanna og skipuleggja svæðið og skipta því í minni svæði með mismunandi mikilli umferð.

Yellowstone er 9000 ferkílómetrar og þar tekst mönnum að skipuleggja umferð ferðamanna þannig að ekki hljótist spjöll af af þeim tveimur milljónum ferðamanna sem þangað koma.

Það þarf að vísu að beita ítölu á 1600 km langa göngustíga garðsins en með ítölunni er ferðamanninum tryggð sú einvera eða fámenni sem hann sækist eftir.

Hér á landi er öllum ferðamönnunum beint að örfáum stöðum þar sem ekki er hætta á að þurfi að virkja en forðast að láta nokkurn mann vita eða gera neitt til þess að opna fjölmörg önnur svæði þangað sem hægt væri að dreifa ferðamannastraumnum.

Þess vegna liggur lélegasti malarvegur Suðurlandsundirlendisins að Urriðafossi. Þess vegna er mjög erfitt að komast að hinum stórkostlegu fossum i Þjórsá, sem þurrka á upp með Norðlingaölduveitu.

Þess vegna kostar það daglanga gönguferð að skoða hina tignarlegu fossa í Jökulsá í Fljótsdal sem þurrka á upp að ekki sé talað um hina mögnuðu fossa í Kelduá sem er enn betur varðveitt leyndarmál.

Þess vegna hefur ekkert verið gert með þá stórkostlegu og einstæðu möguleika sem svæðið norðaustan við Mývatn getur boðið upp á ef það verður látið ógert að fara þar frekar fram í virkjunum með tilheyrandi borholum, leiðslum, stöðvarhúsum og raflínum.

Þess vegna gat Samfylkining ekki komið því í gegn í stjórnarsáttmálanum að verðmæti íslenskrar náttúru yrði nú loksins rannsakað ítarlega og endanlega.

Það er notuð tangarsókn gegn íslenskri náttúru.

Úr einni áttinni sækja þeir sem vilja að íslensk náttúra sé sem minnst könnuð og verðmæti hennar ósnortinni haldið kyrfilega leyndri svo að engin hætta sé á að hún ósnortin veiti stóriðjunni samkeppni. Ekki má eyða krónu til þess að ósnortin náttúra njóti jafnræðis gagnvart virkjunum hvað snertir rannsóknir, markaðssetningu og fjárfestingar til framtíðar.  

Úr annarri átt sækja þeir sem nýta sér þetta framtaksleysi og benda á að í óefni stefni vegna átroðnings skipulagslausrar og einhæfrar ferðamennsku og leggja það að jöfnu við margfalt verri umhverfisspjöll virkjananna.

Úr þriðju áttinni sækja þeir sem segja: Þarna sjáið þið, - eina leiðin til að nýta landið er að virkja fyrir stóriðjuna.  

Síðan er klykkt út með því að segja að ferðamannastraumur til landsins auki á mengun andrúmsloftsins.

Þá gefa menn sér það að ferðamenn sem koma til Íslands hefðu annars ekki ferðast neitt.

En það er ekki rétt. Eldfjallaþjóðgarðar norðan Vatnajökuls allt niður til Húsavíkur og á Reykjanesskaga myndu keppa um ferðamenn við svipuð svæði á Hawai, Nýja-Sjálandi og Kamsjatka.

Til allra þessara staða er miklu lengri leið en til Íslands. Það er styttra frá París til Íslands en frá New York til Yellowstone.


Bloggfærslur 24. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband