26.7.2007 | 22:38
UTANVEGAAKSTUR - ÓKLÁRAÐ MÁL.
Dómstólar landsins eru að mínum dómi á réttu róli þegar þeir túlka vafa og óljós ákvæði laga um utanvegaakstur hinum ákærða í vil. Í forystugrein Morgunblaðsins í dag kemur fram að höfundur leiðarans fylgist ekki nógu vel með ástandi þeirra mála. Í fyrra kynnti Jónína Bjartmars þáverandi umhverfisráðherra fyrirætlanir um það hvernig staðið yrði að merkingu viðurkenndra vega og slóða og þá kom fram að mikið verk er enn óunnið í þeim efnum.
Það er því ótímabært að hamast í þessu máli fyrr en því verki er lokið, en það felst í því að merkja inn á kort Landmælinga Íslands alla þá vegarslóða sem viðurkenndir eru þannig að eftir það verði hægt að dæma með vissu um það hvort lög hafa verið brotin eða ekki.
Sem dæmi um það verk sem ólokið er má nefna, að þegar ég leit af handahófi á það á þáverandi korti Landmælinga hvort vegarslóði, sem liggur inn að Brúarjökli væri á kortinu, kom í ljós að hann var það ekki.
Það hefði þýtt eftir strangri túlkun laganna að allir þeir fjölmörgu sem óku þá leið á þeim tíma hefðu verið að brjóta lögin.
Afar ósanngjarnt hefði verið á þeim tíma að ákæra allt þetta fólk. Ástæðurnar voru tvær: Þar sem slóðinn byrjaði var og er stórt skilti vegagerðarinnar sem á stendur: "Brúarjökull 8 km."
Þetta skilti er jafn vandað og traust og venjuleg skilti Vegagerðarinnar sem allir helstu þjóðvegir landsins eru merktir með.
Í öðru lagi var það fáránlegt að ekki væri viðurkennd eina slóðin vestan Jökulsár á Dal sem liggur upp að Brúarjökli.
Rétt eins og þessi slembiathugun mín leiddi í ljós að hér þyrfti að vinna betur að verki hefur komið í ljós að engin leið er að klára það á vandaðan hátt nema hafa samráð við kunnugustu menn í héraði sem og önnur samtök ferðamanna svo sem Ferðaklúbbinn 4x4.
Þessi vinna stendur nú yfir og það er ekki fyrr en henni er örugglega lokið sem hægt verður að fara að dæma menn af sanngirni og viti.
Sem dæmi um menn sem hafa allt að hálfrar aldar reynslu af slóðum og leiðum á hálendinu vil ég nefna Völund Jóhannesson á Egilsstöðum sem á sínum tíma vann með Vegagerðinni og öðrum sem fóru um hálendi Austurlands að finna bestu slóðirnar og merkja þær.
Slíka menn þarf að leita uppi og fá til samstarfs um þetta mikilvæga verk.
Mér er kunnugt um að á því svæði sem Völundur hefur verið manna kunnugastur um í nær hálfa öld er ekki enn búið að fara um og ákveða um merkingar slóða en það mun standa til síðar í sumar.
Þangað til held ég að menn ættu að geyma stríðsaxirnar og lofa þeim sem verkið vinna að ljúka því vel og örugglega.
Völundur hefur sagt mér að mjög miklu hafi alltaf skipt að merkja leiðirnar vel og hafa um þær góðar upplýsingar.
Sé það ekki gert villast margir og slóðarnir liggja út um allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.7.2007 | 00:56
MÚLAVIRKJUN,- ÚTSMOGIN FRAMKVÆMD.
Í íslenskum lögum eru ákvæði um mat á umhverfisáhrifum sem sýna gamlan hugsunarhátt, því að í lögunum er miðað er við stærð virkjunar en ekki umfang umhverfisáhrifanna. Mér er minnisstæð virkjun við Hvestu í Arnarfirði þar sem sú virkjun varð að hlíta lögum um mat á umhverfisáhrifum þótt um væri að ræða svo lítið rask að maður varð að leita að virkjuninni úr lofti og sá hana alls ekki af landi.
Ástæðan var gríðarleg fallhæð sem skóp aflið, en aðeins voru beislaðir litlir lækir.
Á sama tíma blasir við hvernig virkja á við Fjarðará í Seyðisfirði með því að skipta ánni í nokkrar virkjanir sem eru undir viðmiðunarmörkum.
Múlavirkjun á Snæfellsnesi er sér kapítuli út af fyrir sig þar sem menn sitja báðum megin við borðið sem virkjunaraðilar og sveitarstjórnarmenn.
Þar með hafa þeir eftirlit með sjálfum sér og skrifa upp á hjá sjálfum sér.
Ef fallhæð virkjunar er nógu lítil er hægt að setja upp virkjun sem er undir viðmiðunarmörkum um afl en hefur samt margfalt meiri umhverfisáhrif en lækjasprænuvirkjunin í Arnarfirði.
Það eru sérkennilegar mótsagnir í því hvort betra sé að hið opinbera eða einstaklingar standi að virkjunum.
Þannig hefði aldrei verið hægt að fara út í Kárahnjúkavirkjun nema með því að láta ríkið ábyrgjast og standa að þessari dæmalausu framkvæmd.
Múlavirkjun og fleiri slíkar sýna hins vegar að draumsýn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að einstaklingar standi ávalt best að nýtingu landsins gengur ekki upp.
Besta dæmið um það er hrikaleg meðferð á afréttum og beitarlöndum um allt land.
Ég kom hér á árum áður oft á svæði þar sem gróðureyðingin af völdum beitar blasti við en bændurnir sögðu alltaf: Þetta hefur alltaf verið svona og ekkert breyst. Þetta vitum við, sem erum kunnugir þessu, þú veist ekki hvað þú ert að tala um.
Ég átti ekkert svar við þessu fyrr en ég kom á svæði fyrir sunnan Hafnarfjörð þar sem fjáreigendur sögðu þetta sama við mig.
Þá loksins gat ég svarað þeim því að ég hafði verið þarna tvo mánuði á sumri í þrjú sumur og vissi sjálfur hve mjög landinu hafði farið aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)