MÝVATN, - ÆTLUM VIÐ ALDREI AÐ LÆRA?

Það er ekki í fyrsta sinn nú að Mývatn kemur til álita á Heimsminjaskrá UNESCO. Þetta kom fyrst upp yfir tæpum áratug en þá skildist mér að tilvist Kísiliðjunnar hefði gert ómögulegt að setja þessa perlu á viðeigandi stað meðal dýrmætustu djásna heimsins. Ég man að ég ræddi við þáverandi sveitarstjóra og hann gat alls ekki skilið hvaða gildi gæti falist í því að vatnið kæmist á heimsminjaskrá heldur sá hann ekkert nema Kísiliðjuna og tilvist hennar.

Þegar ég benti honum á einn helsta ferðamannabækling Norðmanna þar sem bryggjuhúsin í Björgvin voru á forsíðu vegna þess að þau væru á heimsminjaskrá og gæfu Norðmönnum ímynd og velvild sem gæfi stórfelldar tekjurvirtist skilningsleysi hans aukast um allan helming.

Nú er Kísiliðjan horfin og hrunið, sem þessi sveitarstjóri sagði að myndi fylgja því að hún hætti starfsemi, hefur látið standa á sér.

Hins vegar hyggjast menn nú margfalda orkuöflun á svæðinu frá Bjarnarflagi norður í Gjástykki og gera þetta einstæða svæði að samfelldum skógi af borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og háspennulínum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Íslendingar munu reyna að fela þá staðreynd að með þessum virkjanaáformum er svo stórlega spillt landslagsheild sem Mývatn er órofa hluti af, að vafasamt er að Mývatn geti farið inn á hina dýrmætu skrá nú fremur en fyrir áratug.

Einnig að eyðilagðir verða möguleikar á að gera þetta fyrirhugaða virkjanasvæði að einstæðu ferðamannasvæði ekki síður en Öskju, - við Gjástykki hafa sérfræðingar um ferðir til Mars valið sér stað þar sem komandi marsfarar geti æft sig fyrir geimferðir sínar líkt og tunglfararnir gerðu í Öskju 1967.

Að ekki sé minnst á einstæða möguleika á að nýta sér kvikmyndir og ljósmyndir sem teknar voru af fjórtán gosum á svæðinu 1975-84 þannig að ferðamenn geti með hjálp þeirra gengið um svæðið og upplifað þessa mikilfenglegu atburði.

Líklegt er að það verði reynt að þegja framangreint í hel og að hver sá sem reynir að fjalla um þetta mál í stærra samhengi verði snarlega útnefndur "óvinur Norðausturlands númer eitt. "

Ég ætla nú samt að hjóla í þetta mál enda munar mig ekkert um að bæta svona nafnbót við nafnbótina "óvinur Austurlands númer eitt" frá árinu 1999, þegar sú nafnbót var veitt fyrir það eitt að fjallað var um Kárahnjúkavirkjun á þann hátt sem stóðst sérstaka rannsókn á því hvort ég hefði "misnotað aðstöðu mína með gróflega hlutdrægum hætti" eins og það var kallað.

Minnugur samtalsins við sveitarstjórann þarna um árið verður hugsanlega fyrr en varir tímabært að spyrja: Ætlum við aldrei að læra?


mbl.is Ný yfirlitsskrá um fyrirhugaðar tilnefningar á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband