15.8.2007 | 22:42
ÓLÍKAR VERKSMIÐJUR.
Það eru ólíkar verksmiðjur sem fréttir dagsins greina okkur frá að muni rísa á landsbyggðinni til þess að leysa byggðavandann. Á Akureyri rís mengunarlaus verksmiðja með 90 störfum sem styrkir atvinnulíf staðarins án þess að kollsteypa samfélaginu.Í fréttum Sjónvarpsins var sagt að 500 starfa olíuhreinsistöð muni rísa í Hvestudal í Arnarfirði án þess að þess væri getið að neinn vandi væri að krækja í útblásturskvóta vegna hennar.
Verksmiðjan mun væntanlega fljúga í gegnum mat á umhverfisáhrifum eins og vant er hér á landi og landsmenn munu fagna stóreflingu slökkviliða á landsbyggðinni sem fylgir svona verksmiðjum.
Fáir munu spá í það að hin nauðsynlega efling slökkviliða og björgunarsveita sem fást við strand olíuskipa stafi af eldhættu sem fylgir svona starfsemi á sjó og landi.
Nú er búið að skrúfa frá sams konar krana og gert var þegar viðskiptaráðuneytið auglýsti rækilega hjá álfyrirtækjum heimsins að á Íslandi væri hægt að kaupa ódýrasta rafmagn á byggðu bóli.
Ísfirðingar og aðrir landsbyggðarbúar þurfa ekki að öfunda fólkið í Vesturbyggð því vafalaust munu hinir erlendu olíufurstar sækjast eftir að reisa fleiri stöðvar víðsvegar um landið.
Raunar væri nær að reisa fyrst stöð í landi Ísafjarðarbæjar á undan stöð í Arnarfirði því að á Ísafirði skapar smíði og rekstur 500 manna vinnustaður ekki eins mikla vinnuafls- og fólksfjöldasprengingu í samfélaginu og slíkur vinnustaður gerir í nágrenni þorpanna á Bildudal, í Tálknafirði og á Patreksfirði.
Nú þegar er stór hluti vinnuaflsins í Vesturbyggð frá öðrum löndum og ansi er ég hræddur um að Íslendingar muni ekki flykkjast vestur til að vinna í olíuhreinsistöð heldur verði Vesturbyggð þegar upp verður staðið byggð að hálfu af aðfluttu erlendu vinnuafli, í mörgum tilfellum fólki sem stendur stutt við.
Mikið hefði það nú verið betri frétt að heyra að 90 starfa aflþynnuverksmiðja risi í Vesturbyggð heldur en olíuhreinsistöð, verksmiðja af því tagi sem fólk í nágrannalöndum okkar vill gjarnan losna við úr nágrenni sínu.
Á heimsvísu má telja það jákvætt að hreinistöðvarnar íslensku geri kleift að leggja niður skrímsli af þess tagi erlendis líkt og Alcoa og fleiri gera við erlend álver þegar álver þeirra rísa á Íslandi.
![]() |
Leyfa byggingu olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)