HILMAR ÞORBJÖRNSSON - MENNSK ELDFLAUG.

Í Morgunblaðinu í gær var bent á fimmtíu ára gamalt Íslandsmet Hilmars Þorbjörnssonar í 100 metra hlaupi. Það er athyglisvert að þeir tveir Íslendingar sem kepptu á OL í Melbourne 1956 eiga tvö elstu Íslandsmetin og verður áreiðanlega langt þangað til 16,70 metra met Vilhjálms Einarssonar í þrístökki verður bætt. Það vill svo til að ég horfði á 100 metra hlaup Hilmars 18.ágúst 1957 og það sem var ótrúlegaslt var hve langt hann var á undan næsta manni, um það bil tíu metrum ef ég man rétt.

Hann stakk alla keppinauta sína af strax í viðbragðinu og þaut í mark eins og eldflaug. Hilmar svo óheppinn að eiga við meiðsli að stríða í Melbourne þar sem náðist svo sem ekkert sérstakur árangur í hlaupinu, þótt sigurvegarinn, Bobby Morrow, sigraði bæði i 100 og 200 metra hlaupi.

Þegar Hilmar spretti svo eftirminnilega úr spori 1957 var hlaupið á malarbraut og tæknibúnaður allur annar en síðar varð með bæði tartanbrautum og betri skóm, að ekki sé talað um mun betri og meiri þjálfun.

Notkun stera, sem síðar ruddi sér til rúms, var óþekkt á þessum tíma og hlaupararnir hrein náttúrubörn. Steranotkunin sem sveif yfir vötnunum þegar leið að 1970 setur ævinlega svolítið spurningamerki við bestu afrekin þá.

Árangur Hilmars er sambærilegur við þau afrek sem voru unnin á undan honum og þá áttu Ármenningar nokkra frábæra spretthlaupara, Hörð Haraldsson í kringum 1950, sem hefði átt góða möguleika á að komast á verðlaunapall á EM í Brussel í 200 metra hlaupi, - Guðmund Lárusson á sama tíma sem missti fyrir óheppni af þriðja sætinu í 400 m á sama móti, - og í kringum 1957 var Þórir Þorsteinsson skæður 400 metra og 800 metra hlaupari.

TÍmabilið 1947 - 57 var einstakt spretthlauparatímabil. ÍR-ingar áttu gullaldarlið, - Haukur Clausen varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi kornungur og átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi sem stóð í hátt á annan áratug, 21,3 sekúndur og hefði líklega komist á verðlaunapall í 200 m á EM 1950 ef honum hefði ekki verið meinað að taka þátt fyrir grátbroslegar sakir.

Örn bróðir hans stóð honum lítt að baki í 100 og 200 og var betri í 400, en tugþrautin var hans aðalgrein.
Á árunum 1946-49 var Finnbjörn Þorvaldsson einn albesti spretthlaupari Norðurlanda.

Ekki má gleyma KR-ingnum Ásmundi Bjarnasyni sem blómstraði frá 1948-54 og komst í úrslit í 200 metra hlaupi á EM 1950.

Nú er að sjá hvort Sveinn Elías Elíasson geti bætt hið hálfrar aldar gamla met. Það yrði mikið gleðiefni í fjölskyldunni, Jónína, dóttir mín þjálfaði hann fyrstu sex árin og hann lánaði mér skó til að hlaupa í 100 metrana í hitteðfyrra á Laugardalsvelli eftir 40 ára keppnishlé.


Bloggfærslur 19. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband