OLÍUBÁL, EKKERT MÁL FYRIR JÓN PÁL!

Í Kastljósþætti kvöldið eftir siðustu kosningar söng þáverandi iðnaðarráðherra með mér: "Mig dreymdi ég væri uppi árið 2012 / Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf". Ekki er að sjá annað en svipuð bjartsýni ríki nú hjá olíuhreinsistöðva-draumóramönnum þótt umhverfisráðherra kveðið upp úr með það sem ég og fleiri höfum verið á benda á að stóri draumurinn um olíuhreinsistöðvar sem bjargvætti fyrir landsbyggðina gengur ekki upp hvað snertir skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-samningnum.

En í að mörgu leyti fróðlegu viðtali við hinn geðþekka og ágæta talsmann þessara áforma, Ólaf Egilsson má ráða af orðum hans að þeir sem fyrir þessu standi hafi engar áhyggjur af þessu.

Þeir ætli sér að hefja framkvæmdir á næsta ári þótt umhverfisráðherra sjá á því öll tormerki að hægt sé að láta þetta flókna ferli ganga svo ofurhratt. Væntanlega hafa þeir olíugróðavonarmenn það sem fyrirmynd þegar talsmaður Alcoa sagði að undirbúningsferli og samningar vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu gengið sjö sinnum hraðar hér á landi en í öðrum löndum.

Af viðtalinu við Ólaf Egilsson var ekki annað að ráða en að einfaldlega stæði til að reisa stöðina með látum en bíða með að gangsetja hana þangað eftir að Kyoto-samningurinn rennur út 2012!

Er þetta ekki dæmigert fyrir óðagot Íslendinga þegar þeir fyllast framkvæmdagleði með dollaraglampa í augum?

Á sínum tíma þurfti talsverðan tíma til að koma þeim sem ætluðu að leggja Norðurveg um Stórasand, Kaldadal og Þingvelli í skilning um að svona trukkaflutningavegur með tilheyrandi umhverfisáhrifum og hættu á umhverfisslysum stangaðist á við UNESCO-stimpil Þingvalla og lög um vatnsverndarsvæði Þingvallaþjóðgarðs.

Einnig yrði Stórisandur mjög misviðrasamur vegarkafli hátt yfir sjó.

Nú virðast ákafamennirnir um olíuhreinsistöðina hafa fundið út að það sé ekkert mál fyrir Jóna Pála olíudraumamanna að stjórna því að Íslendingar losi sig undan skuldbindingum um takmörkun á losun á gróðurhúsalofttegundum árið 2012.

Með sömu bjartsýninni er auðvitað heldur ekkert mál að reisa öll fyrirhuguðu risaálverin, - aðeins þurfi a sjá til þess að þau fari ekki fram úr Kyoto-kvótanum fyrr en eftir að hann rennur út.

Auðvitað þurfa menn árið 2012 ekki heldur að taka neitt mark á stefnu núverandi ríkisstjórnar varðandi stórfelldan samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2050, því núverandi ríkisstjórn hefur ekki umboð kjósenda nema til 2011.

Í hinu annars um margt ágæta og upplýsandi viðtali við Ólaf Egilsson kom hvergi fram hvort ætlunin verði að kaupa losunarkvóta flyrir olíuhreinsunina enda er ekki að heyra annað en að menn telji alla vegi færa og allar skuldbindingar fallnar niður frá og með 2012.

Það var innistæða fyrir hinum fleygu orðum Jóns Páls í Sjónvarpssal á sínum tíma. Hvar er innistæðan fyrir bjartsýniskasti olíuhreinsunarmanna?


Bloggfærslur 20. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband