22.8.2007 | 20:03
HAFÐIR AÐ GINNINGARFÍFLUM.
Nú er það komið fram sem ég spáði fyrir tæpu ári í bæklingnum "Íslands þúsund ár" að landeigendur á svæði Kárahnjúkavirkjunar uppgötvuðu það endanlega að þeir hefðu verið hafðir að ginningarfíflum. Fölva hefur slegið á dollaraglampann í augum þeirra.
Rétt er að birta á ný eftirfarandi lýsingu lögfræðings Landsvirkjunar sjálfra á hinu raunverulega eðli þessarar dæmalausu framkvæmdar:
"...Áhættusöm framkvæmd...", "....erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilelgu-, umhverfislegu- og markaðslegu tillti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og það rýrir meðal annarra þátta gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka...ekki hægt að útloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."
Einn landeigendanna hittir því naglann á höfuðið þegar hann segir landeigendur verða fórnarlömb þess kostnaðar sem fyrrgreind lýsing sjálfrar Landsvirkjunar tíundar og að þeir verði lántir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna virkjunarinnar.
En fleiri munu þurfa að borga þegar öll kurl verða komin til grafar.
Fullyrðingar talsmanns Landsvirkjunar í dag um að virkjunin muni standast arðsemiskröfur eru kokhreysti, - spádómurinn og röksemdirnar fyrir hinu gagnstæða í "Íslands þúsund ár" eiga eftir að koma fram.
Og jafnvel þótt þessar arðsemiskröfur stæðust eru þær byggðar á forsendum sem ekkert einkafyrirtæki hefði vogað sér sætta sig við.
Virkjunin er risaframkvæmd í sovéskum stíl, byggð á hugsuninni sem talsmaður Landsvirkjunar orðaði svo vel þegar hann var inntur eftir því hvers vegna ekki hefði verið rannsakað fyrirfram misgengissvæðið sem sást úr lofti þar sem til varð meira en hálfs árs seinkun borana og framkvæmda með ómældum kostnaði:
Hann svaraði því til að ekki hefði þótt ástæða til að eyða tíma og fé í þessar rannsóknir sem svo augljóslega hefðu verið bráðnauðsynlegar, - "...við þurftu að fara þarna í gegn hvort eð var!"
Svo heppilega vildi fyrir virkjanafíklana að þessi hluti gangaleiðarinnar var inni í miðri leiðinni og því myndu vandræðin ekki dynja yfir fyrr en á síðasta kafla borana.
Auðvitað ekkert mál að vaða út í þetta á þessum nótum þegar vitað var að þjóðin myndi borga allan brúsann síðar meir, hvernig sem allt færi.
Landeigendur eru nú að upplifa það að þeir verði með þeim fyrstu til að blæða, - við hin komum seinna.
![]() |
Landeigendur látnir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna Kárahnjúkavirkjunar" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)