TVEIR ÞJÓÐVERJAR TÝNAST, 1907 OG 2007

Sumarið 1907 hurfu Þjóðverjarnir Knebel og Rudloff sporlaust í Öskju og það er sérkennileg tilviljun að einmitt öld síðar skuli tveir Þjóðverjar týnast á svipaðan hátt í íslensku fjallendi og að árið 2007, rétt eins og 1907, skuli líða vikur þangað til uppgötvast að eitthvað hafi farið úrskeiðis. 1907 var engin leið að tryggja að hjálp bærist ef eitthvað bæri útaf í Öskju, - þangað var tveggja dagleiða ferð á hestum. Nú tekur 20 mínútur að fljúga frá Mývatnsflugvelli yfir Öskju.

Á hitt er að líta að ekkert símasamband er innan úr Öskju við umheiminn, ekki einu sinni um gervihnött.
Öðru máli gegnir um Öræfajökul og því er sárt til þess að vita að ferðamenn sem þar eru að príla geti verið týndir svo lengi án þess að um vandræði þeirra sé vitað.

Í þjóðgörðum erlendis er vandlega fylgst með fólki sem þar er í gönguferðum og það við miklu hættuminni aðstæður en hér á landi. Í Yellowstone þarf til dæmis leyfii til að ganga eftir 1600 km löngu göngustígakerfi garðsins og göngufólk verður að halda nákvæmar tímaáætlanir.

Boð og bönn eru hvimleið en það er mikill munur á því að segja "nei" eða segja "já, ef..." og síðan að tilgreina eðlileg skilyrði. Í tilfelli Þjóðverjanna á Svínafellsjökli hefði ekki þurft annað en að þeir tilkynntu hvert þeir ætluðu og hve lengi þeir yrðu og að þeim yrði gerð sérstök grein fyrir því hve hættulegt svæðið væri og bent á heppilegri gönguleið.

Vanur jöklagöngumaður sagði mér í gærkvöldi að hafi þeir fallið niður í sprungu á Svínafellsjökli lendi þeir í mörgum tilfellum í þvílíkum vatnssvelg þar niðri að aldrei muni finnast af þeim tangur né tetur.

Hafi þeir lent í slíku slysi hefði svo sem ekki breytt neinu hvort hvarf þeirra uppgötvaðist strax eða síðar. Það breytir því hins vegar ekki að menn geta líka lent í óhöppum þar sem skiptir sköpum að það uppgötvist sem fyrst.

Svo vikið sé aftur að hvarfi Rudloffs og Knebels setti Jón Jónsson heitinn jarðfræðingur fram þá kenningu skömmu fyrir andlát sitt að sjá mætti enn ummerki um hrun úr bakka Öskjuvatns sem líklegast hefði sökkt þeim félögum á siglingu upp við hann.

Til stóð að við Jón færum þangað næsta sumar og skoðuðum staðinn en Jón lést áður en það gæti orðið að veruleika.

Þar með hvarf sú vitneskja og gátan um afdrif þeirra er jafn dulúðleg og fyrr og sennilega áfram reimt af þeirra völdum samanber þessar hendingar:

Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tungfarar upplifa ósköpin tvenn: -
eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.

Höll íss og eims, -
upphaf vors heims, -
djúp dularmögn, -
dauði og þögn.


mbl.is Á þriðja tug björgunarsveitarmanna leitar á Svínafellsjökli við erfiðar aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband