28.8.2007 | 11:43
ÓGREIÐAR GÖTUR, - HVERS VEGNA?
Í blogginu hér á undan minnist ég á vestfirsku vegina. Ótrúlegt en satt, þá var Þorskafjarðaheiðin gleðilegasti kaflinn á hringferðinni um Vestfirði um síðustu helgi. Vegur hefur verið lagaður mikið síðan ég fór hann síðast og var í miklu betra ástandi en búast mátti við um svo "frumstæðan" veg. Öðru máli gegndi um ýmsa vegakafla á hringnum, svo sem kaflann frá Þingeyri til Vatnsfjarðar, þar sem manni finnst að sömu klappirnar standi upp úr veginum og fyrir 30-40 árum.
Eyrarfjallið og hluti malarvegarins í Mjóafirði var líka herfilega á sig kominn, - hvernig er það eiginlega, eru ekki til vegheflar á Vestfjörðum?
Hættulegastar eru sumar holurnar sem gapa á móti vegfarendum þegar ekið er inn á brýr, - Helga hrópaði oft upp yfir sig þegar ég fór yfir brýrnar aðeins nokkra sentimetra frá handriðinu til þess að sleppa við hvassa steinsteypueggina þar sem brúin mætir mölinni.
Þó ekki væri nema að senda einn lítinn pallbíl með möl sem mokað væri ofan í þessar einu holfur, myndi það gera mikið gagn. Hjólbarðar á nýjustu bílunum eru orðnir svo lágir að þeir mega ekki við neinu, aðeins nokkrir sentemetrar frá veginum upp í felgu.
Nú er farið að tala um olíuhreinsistöðvar fyrir vestan og maður heyrir strax sönginn: Þegar þær koma verða til nógir peningar til að laga vegakerfið.
Ég er núna á ferð um Norðausturland þar sem þessi söngur er sunginn sí og æ: Haldið þið að það sé munur að hafa fengið Kárahnjúkavirkjun, - annars gæti enginn notið náttúru austurhálendisins.
Það er búið að syngja þennan söng í áratugi og þegar við Friðþjófur Helgason hittum eitt sinn hóteleiganda hér um árið eftir að hafa eytt heilum degi í að ganga niður með Jökulsá í Fljótsdal og mynda fossarröðina einstöku, þar sem tveir samliggjandi fossar eru á hæð við Gullfoss, - og lýstum þessu einstaka landslagi fyrir hótelhaldaranum, - andvarpaði hann og sagði: "Haldið þið að verði ekki munur þegar Landsvirkjun verður búin að leggja vegi um þetta allt og opna það fyrir ferðamönnum.
"Til að skoða hvað?" spurðum við. "Nú, þetta stórkostlega landslag sem þið voruð að lýsa," svaraði hótelhaldarinn, "fossana og allt það."
"Fossana?", spurðum við. "Þeir verða horfnir, því að áin verður leidd í göng fyrir ofan þá."
"Æ, ég ég gleymdi því", svaraði hótelhaldarinn.
Þetta var eitt af mörgum dæmum þess hvernig hægt er að þylja sömu síbyljuna nógu oft til að hún verði óhagganleg.
Þar sem ég hef farið um þjóðgarða erlendis (25 slíka) hef ég hvergi séð að það hafi skort neitt á að kerfi vega og slóða væri eins gott og hugsast gat svo og öll önnur þjónustumannvirki, og hvergi þurfti að reisa risaverksmiðjur eða stórar eða smáar virkjanir til þess að það væri hægt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)