5.8.2007 | 01:06
VERSLUNARMANNAHELGIN AÐ BREYTAST.
Það stefnir í að það verði úrelt að vera með fréttamenn í beinum útsendingum fyrir og um verslunarmannahelgina. Síðastliðinn föstudag var ekkert meiri umferð út frá Reykjavík en um venjulega helgi. Verslunarmannahelgin er að ganga í gegnum breytingaskeið breyttra tíma og það á sér hliðstæður.
Um miðja síðustu öld blómstruðu héraðsmót stærstu stjórnmálaflokkanna. Síðan kom breyttur tími og Sumargleðin ríkti frá 1972-86.
Enn breyttust tímar, samgöngur bötnuðu, úrval af myndefni til heimanota jókst og fólk lagðist í utanlandsferðir.
Frá því um 1960 hefur verslunarmannahelgin borið ægishjálm yfir aðrar sumarhelgar en tímarnir breytast enn, æ fleiri fara í sumarhús um hverja helgi, fólk hefur fleiri tækifæri til að fara í helgarferðir en áður var.
Ýmis bæjarfélög hafa skynjað þessar breytingar með því að brydda upp á hátíðum aðrar helgar sumarsins, Humarhátíð, Fiskidaga, Írska daga o. s. frv.
Verslunarmannahelgin er hálfum mánuði eftir að sumarhitinn nær hámarki og oftar bjóða helgarnar á undan upp á betra veður. Það er því hið besta mál að þær eflist og verði jafnokar verslunarmannahelgarinnar.
Verslunarmannahelgin hefur verið gósentíð íslenskra fjölmiðla í heila viku á hverju sumri undanfarin ár en nú held ég að fjölmiðlarnir verði að fara að endurskoða hlutföllin á milli umfjöllunar þeirra um þessa helgi og annarra helga sumarsins.
Útihátíðir í gamla stílnum hafa hopað, - sú var tíðinn að 10 þúsund manns voru í Húsafellsskógi, Atlavík og í Galtalækjarskógi.
Galtalækjarhátíðin þraukaði, - fyrsta embættisverk núverandi forseta Íslands var að koma þangað 1996 en síðan eru ellefu ár breytina á högum fólks.
Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er sennilega eina hátíðin sem ekki mun hverfa, - hún er byggð á 130 ára hefð og ef hátíðargestum fækkar niður í það sem var fyrir 50 árum er það bara í góðu lagi, - þá verða það fyrst og fremst Vestmannaeyingar sjálfir sem verða í Herjólsdal og hátíðin komin í gamla klassíska Eyjahorfið.
Þannig fannst mér hún alltaf best og sönnust.
Og meðal annarra orða: Ef Árni Johnsen gerði eitthvað af sér sem kynnir árið 2005 sem átti að vera ástæða til að víkja honum til hliðar, - af hverju var það ekki gert í fyrra, heldur fyrst nú?
Mér finnst ég finna lykt af málinu og furða mig á þessu.
Í hitteðfyrra fauk þessi vísa hjá mér í orðastað Árna eftir að hönd hans hafði snert Hreim söngvara:
Mitt fylgi er feikna sterkt.
Ég er frægur víða um lönd
og get ekki að því gert
þótt menn gangi mér á hönd.
![]() |
Margmenni á heimsmeistaramóti í traktorsralli á Flúðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)