KRISTINN HALLSSON - FÁGAÐUR LJÚFLINGUR.

Ofangreind orð koma í huga við að minnast Kristins Hallssonar söngvara. Fleira mætti nefna: Létt lund, smekkvísi, fágun og færni.

Hann var ákaflega músíkalskur og í þau skipti sem við ferðuðumst saman var hann einstaklega ljúfur ferðafélagi sem lyfti undir lífsgleði samferðamannanna.  

Ég heyrði Kristin aldrei syngja nokkurt lag öðruvís en vel. Ef ég ætti að nefna eitt lag, sem hann söng svo vel að ég get ekki ímyndað mér að nokkur geti sungið það betur, er það lagið Sverrir konungur.

Það er hrein unun að heyfa hvernig Kristinn syngur þetta lag. Það ætti að vera skylda í tónlistarkennslu hvers manns að hlusta á þennan flutning hans.

Þetta er eitt besta dæmið sem ég þekki um það hvernig söngvarar ná að syngja lög þannig að enginn getur gert betur, sungið svo miklu betur en aðrir að það er nánast vonlaust fyrir aðra að reyna við lagið.

Nokkur dæmi: Sigurður Ólafsson / Kveldriður, - Elly Vilhjálms / Ég vil fara upp í sveit, - Vilhjálmur Vilhjálmsson / Söknuður, - Vera Lynn / We´ll meet again, - Patsy Cline / Crazy.

Hlátur Kristins var óvenju smitandi og húmor hans sömuleiðis. Ég veit að hann hefði haft húmor fyrir því að ég upplýsi nú, að í laginu Hláturinn lengi lífið heyrði ég fyrir mér í Kristni og reyndi að líkja eftir rödd hans og hlátri á eftirí setningunni: "...sumir drynja rokur (umm hu! Hu! Hu! Hu!)..."

Ég gat ekki hugsað mér nokkra rödd sem túlkaði betur innilegan hlátur.

Þannig lifir Kristinn í minningunni sem snillingur sem miðlaði til okkar hinnar af gnægtarbrunni listar sinnar og ljúfu lífsgleði.

Fyrir það vil ég þakka honum með þessum línum og votta hans nánustu dýpstu samúð.  

 


Bloggfærslur 7. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband