LEGGUR OG SKEL.

Sú var tíðin að íslensk börn í sveitum landsins léku sér að leggjum og skeljum og beisluðu hugmyndaflug sitt til þess að búa til óskaveröld sína með viðfangsefnum fullorðinsáranna. Þegar ég fór fyrst í sveit barn að aldri kynntist ég því hvernig sveitabörnin notuðu kindakjálka sem ímyndaðan búfénað í leikjum sem gátu enst heilu dagana.

Þessir leikir voru í raun þjálfun og undirbúningur fyrir lífið og höfðu tvennt fram yfir kennslu í formi ítroðslu: Leikirnir voru sjálfsprottnir og virkjuðu og þroskuðu það ímyndunarafl sem er nauðsynlegt fyrir hæfileikann til að hafa frumkvæði og finna upp hluti. Af því að þetta voru leikir voru þeir skemmtilegir jafnframt því sem þeir voru þroskandi og uppbyggilegir.

Smám saman vaknaði hjá mér áhugi á að verða bóndi þegar ég yrði stór og einhver yndislegasti tími sem ég hef lifað var í júníbyrjun 1954 þegar ég fékk í fyrsta sinn að sjá um búrekstur í fjarveru frænda míns á bænum en þó undir yfirumsjón roskinnar frænku minnar.

Það var erfitt en skemmtilegt, heilnæmt og gefandi.

Af hverju er ég að minnast á þetta nú?

Vegna þess að enda þótt gemsa- og tölvuveröld nútímans sé okkur svo ómissandi að við eigum erfitt með að hugsa okkur lífið án þerra, eru takmörk fyrir því hve langt við getum gengið í því að gera þessa tækni að ofurvaldi í lífi okkar.

Í gær hitti ég mann sem er atvinnurekandi og sagði mér frá því að það væru ótrúlega mörg dæmi um það að rígfullorðnir menn væru orðnir slíkir tölvuleikjafíklar að þeir kæmu úrvinda til vinnu eftir vökunætur við tölvurnar og þyrftu helgina til að reyna að jafna sig.

Ef þeir síðan "dyttu í það" um helgina kæmu þeir jafnvel ekki til vinnu á mánudagsmorgni.

Fyrst fullorðið fólk á það á hættu að ánetjast svona tölvum er augljóst að börn og unglingar eru í enn meiri hættu.

Tvennt sem ég tók eftir í fjölmiðlum síðustu daga vekur athygli mína.

Annars vegar það að nú þarf ungt fólk að takast á hendur tíu milljón króna meiri skuldbindingar við að fara út í íbúðakaup heldur en fyrir þremur árum.

Hitt var það að þeim börnum fer fjölgandi, sem koma í vinsælar sumarbúðir í fyrsta sinn, að þau hvorki geta né kunna að leika sér.

Við getum tengt þetta saman. Hvað þarf ungt fólk að gera til þess að standast þá almennu kröfu að eignast hús og innbú, bíla og hverskyns tæki, hjólhýsi, húsbíla, tjaldvagna og sumarbústaði og stunda jafnframt það samkvæmislíf, sem Emilíana Torrini kallaði "skyldudjamm", um hverja helgi?

Þetta fólk þarf að vinna eins og skepnur og neyðist til að vanrækja uppeldi og samvistir við börn sín.

Þá er mjög þægilegt að gera tölvurnar og netið að barnfóstrum.

Ég orða þetta svo í einni setningunni í nýjum texta sem ekki hefur enn verið fluttur opinberlega: "Pabbi og mamma púla og djamma..."

Margir tölvuleikir reyna sem betur fer á hæfni þátttakenda til að leysa viðfangsefni. En margir byggjast á ofbeldi í brengluðu umhverfi.

Nú kunna einhverjir að benda á að ofbeldis- og hernaðarleikir séu ekkert nýtt.

Við strákarnir skylmuðumst og þóttumst vera Gunnar á Hlíðarenda eða Skarphéðinn Njálssson hér í gamla daga í sveitinni. En við urðum aldrei háðir þessum leikjum.

Þeir efldu hreyfingar okkar og stæltu okkur, og ef eitthvað fór úrskeiðis fundum við fyrir sársaukanum í stað þess að vera tilfinningalausir áhorfendur að tölvuleik dauða og örkumla.

Tilfinningaleysið í gerviveröld tölvunnar getur skapað ískyggilega firringu.

Og þegar börn nútímans eru orðin svo háð gemsunum, netinu og tölvuleikjunum að þau "brjálast", eins og það var orðað í blaði í gær, við það eitt að vera án þessa í part úr degi, þá getur það ekki verið eðlilegt.

Netið, tölvurnar og gemsarnir eru miklu betri uppfinningar en svo að við eigum að sætta okkur við það að þau verði að plágu sem kemur lífi okkar úr jafnvægi.

 

 


Bloggfærslur 9. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband