EYJÓLFUR AÐ HRESSAST!

Fyrr á þessu ári spurði ég í bloggi hvort möguleiki væri á að Eyjólfur hresstist, þ. e. landsliðsþjálfarinn. Ég minnti á að ferill hans sjálfs sem leikmanns hefði alla tíð haft á sér yfirbragð dugnaðarforks sem aldrei gæfist upp og berðist til síðasta blóðdropa, hvert sem mótlætið væri. Þessir eiginleikar eru nú að skila sér hjá landsliðinu þótt sigurinn í kvöld hafi einkennst af dálítilli heppni.

Svo virðist sem Eyjólfur sé að skila frá sér baráttuanda til strákanna en það var hann sem fyrst og fremst skóp sigurinn í kvöld. Strákarnir helguðu leikinn minningu Ásgeirs Elíassonar og kannski var andi hans með í för.

Það var ákaflega ánægjulegt að sigur skyldi vinnast í minningu hins frábæra þjálfara og góða drengs.

Eyjólfur og þið allir! Til hamingju! Þið eruð heldur betur að hressast í síðustu tveimur leikjum. Áfram svona!


mbl.is Ísland sigraði Norður-Írland 2:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"VARÚÐ OG VIRÐING"

Síbyljan um forystu Íslands í umhverfismálum hefur slævt umhverfisvitund okkar og breiðir yfir bresti í þeim málum.Talsmenn Samfylkingar eru nú byrjaðir að nota sömu orðin og Framsókn gerði þegar umhverfisröskun var í undirbúningi. Katrín Júlíusdóttir segir að fara verði með "varúð" við virkjanir í Þjórsá, en þær felast meðal annars í því að drekkja einstæðum fornminjum undir fyrirhuguð lón virkjana. Ráðamenn Framsóknar tönnluðust á "varúð og virðingu" fyrir hinni einstæðu íslensku náttúru þegar virkjun neðst í Þjórsárverum og fleiri virkjanaáform voru á dagskrá.

Valgerður Sverrisdóttir sagði að Kárahnjúkavirkjun hefði staðist "ströng" íslensk lög um mat á umhverfisáhrifum!
Þau voru ekki strangari en það að þessi mestu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslandssögunnar fengu grænt ljós hjá Siv Friðleifsdóttur.

Talsmenn álvers á Reyðarfirði tönnlast á því að verksmiðjan verði með "fullkomnasta hreinsibúnað í heimi" þótt fyrir liggi að hreinsibúnaður Norsk Hydro hefði sleppt tuttugu sinnum minna brennssteinsdíoxíði út í loftið en sá ameríski.

Ég frétti af því að á ráðstefnu um gufuaflsvirkjanir á dögunum hefði ræðumaður, sem talaði mjög fyrir umhverfisvernd, eingöngu talið hana felast í því að ganga sem "snyrtilegast" frá virkjunarsvæðunum. Í hans huga virtist ekki inni í myndinni að nokkurt jarðhitasvæði yrði látið ósnert.

Nær allt sem við Íslendingar höfum gert í virkjun umhverfisvænni orkugjafa en olíu hefur verið með sem skjótastan gróða í huga. Þegar við byrjuðum að nýta jarðhitann í stórum stíl í olíukreppunni um 1980 var það eingöngu vegna þess að sú orkuöflun var ódýrari en hin dýra olíunotkun.

Nú hömumst við við að virkja allt sem hægt er að virkja fyrir mengandi álver og réttlætum það með því að annars yrðí virkjað með kolum annars staðar. Þau rök standast ekki því jarðhiti og vatsnafl Íslands er langt innan við eitt prósent af slíkri orku í heiminum.

Neðri-Þjórsá var ekki á listanum sem birtur var í "Fagra Ísland" yfir þá virkjanakosti sem ætti að víkja til hliðar. Þess vegna virðist stefna í það að hið eina sem Samfylkingin geti lagt til málanna sé að fornminjunum hjá Þjótanda sem og þeim lendum sem fara undir vatn verði sökkt með "varúð". Búðafoss og Urriðafoss verða væntanlega þurrkaðir upp gætilega og með varúð.

Vonandi verðu það ekki þannig að Samfylkingin fari svona undan í flæmingi varðandi aðrar virkjanir sem hinn allsráðandi meirihluti Sjálfstæðismanna stefnir að að knýja í gegn.


mbl.is Ekkert íslenskt sveitarfélag tilnefnt til umhverfisverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband