13.9.2007 | 23:49
RÉTTLÁT REFSING?
Refsingin sem alþjóða bílaíþróttasambandi hefur dæmt Mc Laren liðið í er ekkert smáræði. Ýmsar spurningar vakna. Ef iðnaðarnjósnirnar sköpuðu bílunum þær endurbætur að þess vegna vegnaði þeim svo vel, - hvers vegna fá þá ökumennirnir að aka áfram? Þeir hafa þá væntanlega hagnast alveg eins og liðið í heild? Eða hvað?
En það má líta á þetta frá annarri hlið. Iðnaðarnjósnirnar hafa væntanlega ekki skapað Mc Laren forskot vegna þess að þær upplýsingar sem þeir fengu frá Ferrari snerust um atriði sem Mc Laren hefur væntanlega ekki getað fullkomnað eða gert neitt betri en Ferrari.
Líklegast liggur að baki sektinni og refsingunni að sá sem brýtur af sér verði að gjalda fyrir það, jafnvel þótt það hafi ekki skapað honum forystuna í keppninni. Af því leiðir að ökumennirnir halda sínu.
Síðan má þá deila um það hvort refsingin hefði frekar átt að felast í hærri fjársekt og að stigarefsingunni hefði verið sleppt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 23:07
JÓN ÞÓRARINSSON NÍRÆÐUR, EINN AF BRAUTRYÐJENDUNUM
Jón Þórarinsson tónskáld getur litið stoltur yfir farinn æviveg sem einn af brautryðjendunum í íslensku tónlistarlífi. Það gildir ekki aðeins um mörg frábær tónverk og útsetningar heldur einnig fórnfúst starf hjá Tólistarfélaginu á sínum tíma sem meðal annars skilaði sér í byggingu Austurbæjarbíós. Það hefur nefnilega gleymst að það hús var ekki aðeins hugsað sem bíóhús heldur ekki síður sem tónleikahús og þannig gegndi það á sínum tíma sama hlutverki hvað flutning tónlistar og leiklistar snerti og Háskólabíó, Laugardalshöll og Egilshöll gera nú.
Jón varð síðar um skeið dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins og þá kynntist ég vel ýmsum hliðum hans eins og góðri kímni sem hann lumaði á. Hann var traustur og vandaður og fyrir þessi ánægjulegu kynni er gott að geta þakkað og óskað þessum aldna jöfri allra heilla á þessum stóru tímamótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 15:00
VÍST VARAÐI ÍSLANDSHREYFINGIN VIÐ SÖLU ORKULINDA
Þorsteinn Pálsson skrifar athyglisverðan leiðara í Fréttablaðinu í dag og færir að því gild rök að skipulag orkumála á Íslandi sé í uppnámi. Hann segir m.a.: "Enginn stjórnmálaflokkur hefur í reynd litið á slíka sölu sem grundvallarmál eða stefnufrávik..." Þetta er ekki rétt. Í öllum yfirlýsingum sínum, jafnvel þegar þurfti að greypa áhersluatriði í örfáar setningar á dreifimiðum, lagði Íslandshreyfingin þunga áherslu á það sem gæti gerst ef ekki yrði spyrnt við fótum í þessu efni.
Við vöruðum aftur og aftur við því, síðast í ályktun stjórnar sem send var öllum fjölmiðlum eftir kosningar, að andvaraleysi kynni að leiða til svipaðrar niðurstöðu um orkulindirnar og auðlindir hafsins, að örfáir aðilar, jafnvel erlendir, eignuðustl þessar auðlindir allar.
Síðan er smám saman að koma fram það sem við vöruðum svo sterklega við. Nýjasta dæmið er kaup erlends banka á þriðjungs hlut í íslensku fyrirtæki sem á þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja.
Þótt Íslandshreyfingin kæmi ekki vegna ranglátra kosningalaga, ólikum þeim sem eru í nágrannalöndum okkar, þeim tveimur mönnum á þing sem hún hafði atkvæðafylgi til, - er í fullu gildi það sem segir í fyrrnefndri ályktun stjórnarinnar frá því snemmsumars, að hreyfingarinnar verður þörf áfram og að því verður stefnt að hún starfi áfram og sé tilbúin í slaginn um þessi mál, hvenær sem þess verður þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)