14.9.2007 | 00:20
SAMBAND Á MILLI SKJÁLFTANNA OG FYLLINGAR HÁLSLÓNS?
Það vekur athygli þegar skoðaðir eru skjálftarnir sem voru við Upptyppinga síðsumars að fylgni virðist á milli þeirra og fyllingar Hálslóns. Þegar lónið fylltist hraðast voru skjálftarnir mestir en dró úr þeim þegar hleypt var úr lóninu svo að hækkaði hægar í því. Nú er lónhæðin nokkuð kyrr og líka rólegt á mælunum. Ef þetta er svona er ljóst að farg Hálslóns hefur áhrif á hraunkviku djúpt í jörðu og komið af stað skjálftum sem vísindamenn sögðu vera einstæða, því þeir væru "á ónvenjulega miklu dýpi".
Þess ber að gæta að Hálslón er á sprungusveim Kverkfjalla, sem er það breitt að það nær vestur að Upptyppingum og að Askja er vestan við þennan sprungusveim. Sprungusveimar geta vafalaust verið flókin fyrirbæri. Þannig voru hræringar í Hamrinum og Bárðarbungu undanfari eldgosa og umbrota í Gjálp og Grímsvötnum.
Það er álíka langt frá Bárðarbungu í Gjálp og Grímsvötn og frá Upptyppingum til Kárahnjúka.
Í ljóðinu Áfangar nefnir Jón Helgason "Kverkfjallavættir reiðar". Mann dettur helst í hug skáldlegt innsæi varðandi skjálfta og kvikuhreyfingar á miklu dýpi nú, því Kverkfjöll-Upptyppingar-Kárahnjúkar, þetta er allt á sprungusvæði Kverfjallasveimsins.
Áður en lónið kom gat maður horft yfir berggang á botni Hjalladals sem stefndi þráðbeint á Kverkfjöll og sama var að segja um sprungurnar sem liggja undir Kárahnjúkastíflu og Sauðárdal og eru nú undir fargi Kárahnjúkastíflu og Hálslóns.
Vitað er að þegar ísaldarjökullinn bráðnaði fyrir 11000 árum hafði létting fargsins þau áhrif á svæðið norðan Vatnajökuls að þar jókst eldvirkni þrítugfalt, - endurtek, þrítugfalt, fyrst á eftir meðan landið var að jafna sig.
Þá, eins og nú, hefur þessi fargbreyting haft áhrif langt niður í jarðskorpuna, "óvenju djúpt" eins og jarðfræðingar höfðu á orði um skjálftana við Upptyppinga.
Mikið væri nú gott ef sérfræðingar hefðu eitthvað um þetta að segja því að framansagt eru aðeins hugleiðingar leikmanns, að vísu byggðar á samneyti og samtölum við jarðvísindamenn í áratugi.
Guðmundur Sigvaldason heitinn lagði áherslu á það hve þunn jarðskorpan væri á þessu svæði og byggði varnaðarorð sín á því.
Í vændum er starfstími Kárahnjúkavirkjunar með allt að 50 metra árlegri vatnsborðssveiflu Hálslóns þar sem um er að ræða "miðlunarrými" upp á 2100 gígalítra. 180 metra djúpt lón er gríðarlegt farg, ekkert síður en 180 metra þykkur jökull.
Það má spyrja vísindamenn margra spurninga:
Munu aftur hefjast skjálftar þegar farg lónsins minnkar hvað hraðast á næstu útmánuðum?
Verður aftur skjálftahrina þegar fargið eykst hvað hraðast síðsumars 2008?
Til er sú vísindakenning að hæðar/fargbreyting vatns í Grímsvötnum sem nemur miklu minna magni en hækkun Hálslón geti hleypt af stað eldgosum. Hvað um Hálslón?
Auðvitað var farg ísaldarjökulsins miklu víðfeðmara en farg Hálslóns er nú. Á móti kemur að farg jökulsins minnkaði hægt og bítandi jafnt og þétt á mörgum öldum en farg Hálsóns mun sveiflast upp og niður með hröðum breytingum tvisvar á ári.
Hraðasta breytingin er hækkunin frá júlí til miðs septembers.
Er hægt að spá eitthvað í það hvaða áhrif þessar árlegu fargsveiflur geti haft þegar til lengdar lætur?
Eða verður að bíða og fagna þeirri tilraun sem þarna er verið að gera um áhrif mikils fargs á þunna og sprungna jarðskorpu eldfjallasvæðis vegna þess hve mikið vísindagildi hún hefur, burtséð frá hugsanlegum afleiðingum?
Ég veit að það er líklega ekki vinsælt hjá öllum að ræða þetta af því að þetta mál er "viðkvæmt".
Ég tel hins vegar að málið sé viðkvæmt af því að það sé svo stórt á alla lund og þess vegna eigi frekar að ræða það en smærri mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)