HVENÆR ER AÐ MARKA FORSTJÓRANN?

í heilsíðufyrirsögn byggðri á viðtali við forstjóra Landsnets í Morgunblaðinu 13.febrúar segir að aðeins loftlínur geti tryggt afhendingaröryggi háspennulína. Ef þessi ummæli forstjórans áttu að þrýsta á Sandgerðinga að hverfa frá höfnun þeirra 7. febrúar á línum í gegnum sveitarfélag þeirra til Helguvíkur, - þá tókst sú ætlun forstjórans ekki því að sveitarstjórn Sandgerðis ítrekaði höfnun sína 14.mars. Í kjölfar samskonar höfnunar Grindavíkur 13. sept dregur forstjórinn nú í land og segir að þessar hafnanir komi ekki í veg fyrir lagningu línanna og þar með álver í Helguvík heldur skapi aðeins óvissu.

Rökstuðningurinn gegn línum í jörð, sem var að baki fyrri yfirlýsingu forstjórans, var öflugur. Fyrir línur yfir 200 kílóvolt er slík lausn fimmfalt dýrari en loftlína og nífalt dýrari fyrir línur yfir 400 kílóvolt. Jarðrask á yfirborði er mun meira en við jarðlínu en loftlínu og ekki hægt að sveigja þetta jarðrask eftir landslaginu eins og með línuvegi.

Mun meiri hætta er á bilunum í línum í jörð á skjálftasvæðum og jarðhitasvæðum, svo sem á stæði fyrirhugaðrar línu um Sveifluháls og margfalt lengri tíma tekur að finna bilun og gera við ef línan er í jörðu.

Það gæti skapað óbærilega hættu á stórfelldu tjóni í álverum.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar tók ekki dýpra í árinni í svo um ummæli forstjórans 13. febrúar að hann vitnaði í þau og fyrirsögn Morgunblaðsins með orðunum: "Ef marka má orð forstjóra Landsnets...."

Nú kemur í ljós að miðað við nýjustu ummæli forstjórans var ekki að marka orð hans 13. febrúar og fróðlegt væri að vita hve mikið er að marka orð hans nú. Hvenær er yfirleitt að marka forstjórann?

Vitna að öðru leyti til heimasíðu Landverndar um frekari upplýsingar um þessi mál, svo sem um höfnun sveitarfélagsins Voga á því að taka afstöðu til tillagna um línulögn í landi þess sveitarfélags vegna þess að upplýsingar skorti.

Verður þá mikið að marka þær upplýsingar sem berast kunna?

Maður heyrir raddir sem segja að andóf gegn virkjanaæðinu sé lítilvægt kvak öfgafólks byggt á tilfinningum en ekki rökum. Ekki er svo að sjá í þessu tilfelli og ég minni á næsta blogg mitt á undan þessu um verðmæti tilfinninganna.


Bloggfærslur 17. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband