18.9.2007 | 23:36
MÓTSAGNIR UM VINNUAFLIÐ HJÁ ALCOA.
Um nokkurra missera skeið hafa verið fluttar síbyljufréttir um hina miklu aðsókn Íslendinga að störfum í álveri Alcoa á Reyðarfirði. Á sama tíma hefur blasað við sú mótsögn sem felst í endurteknum heilsíðuauglýsingum eftir starfsfólki sem ekki virðist sjá fyrir endann á. Það er einkennileg notkun á fjármunum að auglýsa að óþörfu. Núna er verksmiðjan aðeins keyrð á fimmtungi af afköstum hennar en samt vinna þar um 100 útlendingar, mest Pólverjar.
Í kvöld voru fluttar þær skýringar á þessu að þetta væri aðeins tilfallandi, - þessir starfsmenn myndu ekki vinna þar áfram og brátt stefndi í að færri Íslendingar kæmust að en vildu. Sem sagt, - sami söngurinn er kyrjaður og fyrr um eftirspurn eftir störfum þótt útlendingafjöldinn og auglýsingarnar eftir starfsmönnum segi allt annað. Og fullyrt að þegar framleiðslan fimmfaldast muni það hafa þær afleiðingar að verksmiðjan verði fullmönnuð með Íslendingum og færri komist að en vilji!
Á sínum tíma var Kárahnjúkvirkjun gyllt fyrir verkalýðssamtökunum með því að fullyrða að 80 prósent vinnuaflsins við virkjanirnar yrðu Íslendingar en aðeins 20 prósent útlendingar.
Raunin varð hins vegar sú að þetta varð öfugt, - 20 prósent voru Íslendingar og 80 prósent útlendingar. Þess vegna verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvenær mótsögnunum linnir hjá Fjarðaráli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
18.9.2007 | 11:38
VIÐ ELSKUM ÞIG, KRISTJÁN!
Það eru góðar fréttir að undirtektir hafi verið afar góðar á tónleikum Kristjáns Jóhannssonar á Akureyri þar sem forsetafrúin var ófeimin við að sýna hrifningu sína. Hallgrímskirkjumálið frá því fyrir tveimur árum er þá vonandi grafið og gleymt enda var þar um að ræða klaufaskap í yfirlýsingum sem getur komið fyrir alla menn. Í því máli hafði Kristján talsvert til síns máls og þess þarf að minnast.
Það sem mestu skiptir er hjartalag Kristjáns sem ævinlega er bundið æskustöðvum hans, landi og þjóð. Kristján er hreinskinari en flestir menn og kemur til dyranna eins og hann er klæddur, stór í sniðum þótt ekki sé hann hávaxinn. Sami gamli góði litríki og fjörmikli Konnarinn skín í heiði þótt það komi fyrir að einstaka skúradropar detti.
Undir gustmiklu yfirborði býr afar hlýr persónuleiki sem yndislegt er að hafa fengið að kynnast.
Stundum er sagt um suma menn að menn annaðhvort elski þá eða hati þá. Þetta á oft við um mikla listamenn og þá sem eru stórir í sniðum. Ég held að þeir sem hata segi meira um sjálfa sig en þá sem þeir hata. Kristján Jóhannsson hefur lífgað upp íslenskt menningarlíf og þjóðfélag í aldarfjórðung á einstakan hátt.
Lítið þjóðfélag eins og Ísland þarf á slíkum mönnum að halda og Kristján á að mínum dómi ekkert annað skilið en að vera elskaður, þótt hann sé ekki gallalaus fremur en aðrir menn. Ég vona að sem flestir geti tekið undir með mér þegar ég segi við þennan stórbrotna listamann: Við elskum þig, Kristján!
![]() |
Frábærar undirtektir á tónleikum Kristjáns: "Ég elska þig, mamma" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)