"BÚIÐ OG GERT" - HEILKENNIÐ.

Ofangreint heilkenni er eitt sterkasta vopnið sem virkjanafíklar Íslands hafa beitt og beita enn. Upptalningin er löng: Of stór Múlavirkjun,  of stór Fjarðarárvirkjun, stórfelld óbætanleg spjöll vegna rannsóknaborana við Trölladyngju, rannsóknarleyfi í Gjástykki, - Hraunaveita, þar sem unnið er að á fullu með byggingu tveggja stórra stíflna og greftri ganga og á eftir varða mynduð tvö miðlunarlón og þurrkaðir upp fossar í tugatali.

Í einni af athugasemdunum við næstu bloggfærslu mína á undan þessari er talað um "þráhyggju" mína út af verki eins og Káranhjúkavirkjun þar sem allt sé búið og gert. Nú fer því fjarri að sú virkjun sé það eina sem ég fjalla um og hún er ekki "búin og gerð", - Hraunaveita og fleiri verkefni allt frá Reykjanesi til Gjástykkis eru í fullum gangi.  

"Búið og gert" - aðferðin hefur svínvirkað og gerir það enn. Iðnaðarráðherra vill ekki afturkalla siðlausa og löglausa veitingu rannsóknarleyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar, - það er búið og gert.

Ég nota orðin siðlausa veitingu því að í alvöru lýðræðisríkjum taka menn ekki svona afgerandi ákvarðanir rétt fyrir kosningar. Í Bandaríkjunum tala menn um "lame duck-president", - að forsetinn sé eins og lömuð önd að því leyti að honum beri að binda ekki um of hendur eftirmanns síns.

Hér keppast ráðherrar oft við að ráðstafa afgerandi málum rétt fyrir kosningar og komast upp með það. 

Þáverandi umhverfisráðherra afþakkaði boð mitt um að eyða hálftíma í að skoða spjöll verktakanna við Trölladyngju,  - það var búið og gert.

Þau spjöll voru margfalt verri en spjöll eftir vélhjólastráka í grenndinni sem fjallað var ítarlega um af okkar beggja hálfu..  

Engu virðist ætla að verða um þokað við Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun, - þetta er búið og gert.  

Haustið 2003 var vísað frá ályktun á landsþingi VG um að ítreka andstöðu við Kárahnjúkavirkjun, - þetta var búið og gert og formaðurinn talaði um það fyrir kosningar að við þyrftum að "lifa með" virkjuninni.  

Virkjanamenn æða áfram á mesta mögulega hraða og treysta á það að ekki komist upp um það hvernig raunverulega er í pottinn búið fyrr en allt er búið og gert.

Viljayfirlýsingar og samningar út og suður varðandi ný álver eru hluti af þessu heilkenni, - fyrr en varir er allt búið og gert.

Nú er bara að vona að einhver fyrirstaða verði hjá þeim sem stór hluti kjósenda hélt að meinti eitthvað meira með Fagra Íslandi en að gefa út fallegan bækling.  


Bloggfærslur 20. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband