25.9.2007 | 22:58
200 MÍLNA FERÐAMANNALANDHELGI?
Ég hef stundum sagt í gamni að við Íslendingar ættum að taka upp nokkurs konar 200 mílna ferðamanna"landhelgi" og opna þar með stórkostlegt ferðamannasvæði handan við Grænlandssund, - að sjálfsögðu í samvinnu við Grænlendinga og í mesta bróðerni. Ég hef þrisvar farið í ferðir yfir að Blosserville-ströndinni sem er aðeins rúmlega 280 kílómetra frá Hörnströndum og hrifist ákaflega af landslagi sem er svo hrikalegt að þegar komið er til baka segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís - hvað?"
Fyrir innan Blosserville-ströndina rísa fjöll til himins sem eru allt að 3700 metrar yfir sjó eða sjö sinnum hærri en Hornbjarg, nær fjórum sinnum hærri en hinir svonefndu "Vestfirsku Alpar", næstum tvöfalt hærri en hæstu fjöll Íslands og Skandinavíu og banka í sjálf Alpafjöllin.
Firðirnir eru jafningjar norsku fjarðanna að hrikaleik og hafa, ásamt sæbrattri strönd, stórbrotið landslag hafíss og jökla fram fyrir íslenska og norska firði.
Ég hef einnig farið landleið yfir Grænlandsjökul og óravíddir hans eru ólýsanlegar. Miðað við hann er Vatnajökull nánast eins og skafl, - 200 sinnum minni að flatarmáli og með þúsund sinnum minna rúmmál.
Sá markhópur ferðamanna sem stækkar mest í heiminum eru þeir sem sækjast eftir lífsreynsluferðum undir kjörorðinu: "Get your hands dirty and your feet wet."
Eini raunverulegi keppinautur Grænlands er Suðurskautslandið sem er margfalt fjarlægara.
Þegar dregin er lína leiðar evrópskra ferðamanna til þessa hluta Grænlands liggur hún yfir Ísland. Frá Ísafirði eru aðeins rúmlega 300 kílómetrar að Grænlandsströnd. Frá Nuuk eða Narsassuak eru meira en 1200 kílómetrar og það úr öfugri átt ef miðað er við ferðamenn frá Evrópu.
Flugvélum er hægt að lenda á tvennan hátt Grænlandsmegin, - skíðaflugvélum uppi á jöklinum og landflugvélum í Sördalen sem er við suðurmörk Blosserville-strandar.
Snjallir flugmenn á Akureyri hafa reynslu af að lenda 19 farþega Twin Otter skíðaflugvélum á jöklinum en einnig hafa bandarískir herflugmenn æft lendingar á stórum Herkúlesvélum við yfirgefna ratsjárstöð sunnar á miðjum jöklinum.
Á sínum tíma notuðu Loftleiðir fragtflutningagerð af Canadair CL-44 skrúfuþotum til farþegaflugs og voru eina flugfélagið í heiminum sem gerði það. Tæknilega ætti að vera hægt að útbúa vélar á stærð við Herkúles til að lenda með farþega á jöklinum.
Grænland er í bókstaflegri merkingu stærsti og nálægasti leyndardómur mögulegs ferðaþjónustusvæðis fyrir íslenska útrás.
Ef farið verður að bora eftir olíu undan ströndum Austur-Grænlands mun það beina ljósinu betur að þessu svæði sem sefur við bæjardyr okkar.
Í raun er það aðeins í þrjá mánuði á veturna sem myrkur kemur í veg fyrir ferðir að ströndinni. Fyrir nokkrum árum flaug ég á einshreyfilsvél í nóvember upp að Blosserville-ströndinni og það er einhver eftirminnilegasta flugferð sem ég hef farið.- slíkir voru ógnvekjandi töfrar heims hafíss, stórhrikalegra fjalla og jökla, rökkurs og kulda sem er nánast steinsnar undan Hornströndum.
Þetta er upplifun sem bíður þess að vera nýtt sem öðruvísi og einstök ferðamennska.
Bloggar | Breytt 26.9.2007 kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.9.2007 | 12:59
ÍSLENSK BELGÍA Í FRAMTÍÐINNI?
Það yrði stórt skref aftur á bak í menningarsögu Íslands ef framkvæmd yrði sú hugmynd sem komið hefur fram að stjórnsýsla verði hér með tveimur jafn réttháum tungumálum, ensku og íslensku. Með því yrðí gengið lengra en Dönum tókst meðan einvaldskonungur þeirra réði hér ríkjum. Mikill munur er á því að sýna erlendu afgreiðslufólki virðingu og skilning þótt það kunni ekki íslensku eða að gera Ísland að eins konar nýlendu Englendinga á tungumálasviðinu líkt og landið hefði orðið ef þeir hefðu ráðið hér á öldum áður.
Ég segi Englendingar, ekki Bretar, því að Englendingar náðu að valta yfir tungumál Íra, Skota og íbúa Hjaltlands og Orkneyja.
Í stóru svæði í suðvesturhluta Írlands eru vegaskilti á tveimur tungumálum, ensku og gelísku, enda eru íbúar Cork stoltir af gamalli írskri arfleifð og tala sumir um Cork sem hina raunverulegu írsku höfuðborg vegna þess hve Dublin er ensk.
Viljum við stefna í þá átt að enska verði jafn rétthá íslensku í stjórnkerfinu? Þurfum við þess? Þurfum við að stefna að því sama og er uppi á teningnum í Sviss eða á Niðurlöndum þar sem ekkert eitt tungumál er öðrum rétthærra?
Er enska orðin að stjórnsýslutungumáli í Finnlandi og öðrum ríkjum þar sem töluð eru tungumál sem mjög fáir tala miðað við fjöldann sem talar tungumál stórþjóðanna?
Er ekki alveg nóg að þurfa að meðtaka lög og reglugerðir frá ESB, reyna að þýða textann og sætta sig við að ágreining verði að jafna með því að skoða erlenda lagatextann?
Er ekki nóg að þurfa að syngja framlag Íslands í Evróvision á ensku?
Hvenær gera þeir Bubbi og Megas enskuna jafnréttháa íslenskunni í ljóðagerð sinni?
Fræg er sagan af Grími Thomsen sem á fundi diplómata frá ýmsum þjóðum lenti á tali við belgískan fulltrúa og var að segja honum frá Íslandi. Hugsanlega hefur viðmælanda Gíms þótt lítið til þessa fjarlæga, kalda og ósjálfstæða útskers koma þegar hann spurði: "Og hvaða tungumál tala svo innfæddir þarna?" "Belgísku" svaraði Grímur að bragði.
Framasögð orð mín eru ekki til að gera lítið úr því að í harðnandi samkeppni þjóða verður að leggja aukna áherslu á kunnáttu Íslendinga í ensku og öðrum mikilvægum tungumálum svo að þeir standi jafnfætis öðrum þjóðum í því efni.
Full þörf er lika á að líta raunsæjum augum á það ástand sem þegar ríkir hér og ekki verður breytt.
Ég hef heyrt að í bekk í grunnskóla einum hafi kennarinn spurt börnin: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á? " Ein stúlka rétti upp hönd og svaraði: "Pólverjarnir."
Bragð er að þá barnið finnur. Við Íslendingar eigum nú gullið tækifæri til að nýta okkur ómetanlegt framlag útlendinga til þjóðarbúskaparins með því að byggja á reynslu annarra þjóða og læra af reynslu þeirra.
Hornsteinar Íslands eru þjóðin, landið og tungan, þ. e. mannauðurinn, einstæð náttúra og menningararfurinn. Hve langt á að ganga í því að skauta fram hjá tveimur þessara hornsteina, náttúrunni og menningararfinum?
Ég hef kynnst tveggja tungumála kerfi vel á tveimur sviðum, - í flugi og rallakstri. Allar þjóðir heims verða að beygja sig undir ensku í fluginu og frönsku í rallakstri.
Þetta er meira áberandi í fluginu og þar hafa Íslendingar fetað góða og raunsæislega leið. Í flugi innanlands gildir íslenskan á meðan enginn erlendur flugmaður er á ferð í viðkomandi flugstjórnarsviði.
Þegar útlendingur kemur inn í umferðina breytist þetta yfir í ensku af augljósum öryggisástæðum.
Í rallakstrinum beygja allar þjóðir sig undir franska textann í reglum um aksturinn ef upp kemur ágreiningur um túlkun laga og reglna.
Svæði þar sem keppnisbílar eru "frystir" áður en þeir fara inn á sérleið er kallað "park ferme" alls staðar í heiminum, líka hér heima.
Ég sé ekki ástæðu til að amast við einu slíku heiti sem undantekningu frá reglunni um að íslenska sem flest. Það er engin ástæða til að óttast áhrif frönsku á íslensku á sama hátt og hin yfirþyrmandi áhrif enskunnar, heldur tilbreyting að eitt franskt heiti skuli frá að þrífast.
Á sínum tíma voru áhrif dönskunnar yfirþyrmandi en nú stafar íslenskunni engin hætta af henni. Á sama hátt og heitið "park ferme" má mín vegna gjarnan vera notað má vel nota áfram danska slettu sem aðeins Bjarni Fel hefur haft þor til að viðhalda en það er danska orðið að "kikse" sem lýsir því þegar maður ætlar að spyrna vel og fast þegar hann skýtur en skotið geigar illilega.
Ekkert íslenskt orð nær merkingu slettunnar "að kiksa" sem sumir knattspyrnumenn hafa afbakað í sögnina að "kingsa" sem hefur yfir sér enskan áhrifablæ enda þá orðið að orðskrípi.
Mín vegna má vel varðveita sögnina að kiksa sem nokkurs konar minjar um þá daga þegar Danir höfðu allra þjóða mest áhrif á Íslandi.
Þegar fulltrúar íslensku þjóðarinnar gæta íslenskra hagsmuna í viðræðum við útlendinga hefur að mínum dómi verið of mikil minnimáttarkennd á ferðinni þegar Íslendingar veigra sér við að tala íslensku og reyna í staðinn að nota annað tungumál en móðurmál sitt.
Þegar staðið er í viðkvæmum og mikilvægum viðræðum hefur sá fulltrúi sem talar eigið móðurmál augljósa yfirburði yfir hinn, sem talar ekki sitt móðurmál. Íslendingar eiga ekki að horfa í þann kostnað sem getur fylgt því að hafa túlk meðferðis þegar mikið liggur við og minnimáttarkennd á ekki að koma í veg fyrir að stefnt sé að jafnræði með samningsaðilum.
Auðvitað getur túlkum mistekist. Frægasta dæmið er líklega þegar Krústjoff reitti Bandaríkjamenn til reiði með því að segja þegar talið barst að samkeppni þjóðanna: "Við munum jarða ykkur".
Bandaríkjamenn túlkuðu þetta sem ósmekklega hótun um að nota eldflaugar og kjarnorkusprengjur til þess að eyða Bandaríkjunum.
Túlkurinn þýddi þarna algenga rússneska myndlíkingu hrátt og beint í stað þess að leita að hinni raunverulegu merkingu sem var meira í ætt við það þegar við Íslendingar segjum: "Við eigum eftir að salta ykkur, - við eigum eftir að baka ykkur", en þetta orðalag hefur fyrir löngu fengið á sig góðlátlegan blæ þegar um er að ræða keppni.
Þótt rússneskur ráðamaður hafi gott vald á ensku talar hann rússnesku í viðræðum við bandarískan ráðamann og skammast sín ekkert fyrir það. Sama á að gilda um íslenskan ráðamann.
Látum aldrei henda okkur að líta niður á íslenskuna heldur þvert á móti.
Stígum varlega til jarðar þegar um er að ræða það eina sem Grímur Thomsen gat verið stoltur af á niðurlægingartíma Íslendinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)