27.9.2007 | 01:23
HVAR LIGGJA ÞRÁHYGGJAN OG ÓHÓFIÐ?
Í gær var liðið rétt ár frá því að Jökulsárgangan var farin um Reykjavík. Síðan þá hafa sumir talað um þráhyggju mína varðandi Kárahnjúkavirkjun og önnur virkjanamál. Þessir menn ættu frekar að huga að stanslausum fréttum daglega um þessi mál sem ég stjórna ekki. Í kvöld var til dæmis rakið í Sjónvarpsfréttum að tólf stóriðju og hátæknifyrirtæki stæðu í viðræðum um kaup á orku.
Fyrr í dag var fjallað í fréttum um vatnalögin og eignarhald orkulindanna, - í gærkvöldi kom í ljós í viðurkenningu sérfræðings hjá Veðurstofunni það sem menn áttu erfitt með að trúa úr bloggi mínu á dögunum um það að Hálslón kæmi af stað skjálftum og kvikuhreyfingum við Upptyppinga, - daglega hafa verið fréttir um vandræði vegna lögleysu sem erlendir starfsmenn við Kárahjúka hafa verið beittir, - daglegar fréttir hafa verið af því hvernig kostnaður við Kárahnjúkavirkjun fer sífellt meira fram úr áætlun og verkið tefst meira og meira.
Þeir sem kvarta yfir "þráhyggjunni" sem birtist í þessu gera það vegna þess að þeim er illa við að upplýst sé um gang þessara mála, - þessi veruleiki er óþægilegur fyrir þá, sá veruleiki að stefnt er að því að fórna ómælanlegum náttúruverðmætum landsins fyrir þessi tólf fyrirtæki sem bíða eftir því að nær allri virkjanlegri orku landsins verði sóað á tiltölulega stuttum tíma.
Það er sá veruleiki sem smám saman birtist varðandi það að Kárahnjúkavirkjun verður byrði á kynslóðum framtíðarinnar og að 130 milljörðum króna hefði verið betur varið í annað.
Ég vitna í svar mitt hér að neðan við athugasemdum um það hvort við sem andæfum gætum ekki hófs.
Það sem hefur áunnist á því ári sem liðið er frá Jökulsárgöngunni er það að smám saman er að varpast á það ljós hvernig í pottinn er búið í virkjana- og orkumálum.
Í stað þess að þeir sem hafa yfirburðastöðu í þjóðfélaginu hvað varðar völd, áhrif og fjármagn til þess að keyra virkjanafíknina í botni geti ráðið því hvað fólk veit eða talar um hefur verið haldið á lofti eins mikilli upplýsingagjöf og umræðu um þessi mál og vanburða samtök náttúruverndar- og umhverfisverndarfólks hafa getað staðið að.
Tilviljanir ráða oft um hlutina. Í veðri eins og var í gærkvöldi hefði að öllum líkindum færra fólk farið í gönguna miklu en var í blíðunni fyrir réttu ári.
Á hinn bóginn hefði gangan fengið meiri athygli og umfjöllun á sínum tíma ef ekki hefði viljað svo til að sama dag var það endanlega tilkynnt að varnarliðið færi af landi brott og í dag var a. m. k. einn fjölmiðill með frétt í tilefni af þessu ársafmæli brottfararinnar.
Framundan er hörð barátta og erfið því að liðsmunurinn er mikill. Framtíðarlandið ætlar einmitt að fjalla um eina hlið þess máls á fundi á morgun, þá staðreynd að Íslendingar hafa einir þjóða í þessum heimshluta ekki staðfest Árósasamkomulagið um stuðning við þá sem þurfa að heyja kostnaðarsama baráttu til að verjast ofurefli valda og fjármagns þeirra sem keyra áfram stóriðjustefnuna.
Það er af nógu að taka í þessum málum og umhverfismálin verða ekki þögguð niður þótt margir eigi þá ósk heitasta að það verði gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)