28.9.2007 | 21:06
VÖNDUM OKKUR GAGNVART ÞINGVALLAVATNI.
Sú meginregla í umhverfismálum var tekin upp á Ríó-ráðstefnunni 1992 að þegar vafi léki á um umhverfisáhrif framkvæmda ætti náttúran að njóta vafans. Fimmtán árum síðar virðist það sjaldgæft að þetta gildi hér á landi. Álit fremstu sérfræðinga um Þingvallavatn hringir Ríó-bjöllum hjá mér og mér finnst að horfa eigi aðeins lengra fram í tímann, þó ekki sé nema örfá ár, áður en farið er út í gerð hraðbrautar úr austurhátt inn í þjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO.
Talað er um hagsmuni tveggja eða þriggja skólabarna sem eigi að valta yfir náttúruverndarsjónarmið sem varða eina heimsminjasvæðið á Íslandi.
Mín tillaga er þessi: Föllum frá gerð þessa vegar og endurbætum Kóngsveginn gamla heldur hæfilega mikið. Hægt er að hækka hann lítillega á þeim stuttu köflum sem snjór sest í á vetrum svo að hægt sé að halda honum opnum allt árið án þess að þar verði um þunga hraðkeyrslu i gegn að ræða.
Útsýnið af þessum vegi er miklu betra en af hinum nýja vegi.
Hröðum framkvæmdum við tvöföldun Suðurlandsvegar og notum féð sem hefði farið í nýjan veg um norðanverða Lyngdalsheiði til gerðar 2 - 1 vegar frá Selfossi í Grímsnes.
Skólabörnin munu áfram komast stystu leið í skólann, hæfilega hröð ferðamannaleið verða árið um kring eftir Kóngsveginum og hröð, greið og örugg umferð tryggð frá uppsveitum Árnessýslu til Reykjavíkur.
Látum Þingvallavatn njóta vafans og skilum því til kynslóða framtíðarinnar með öryggi og sóma.
![]() |
Beiðni um endurupptöku kærumáls vegna Gjábakkavegar synjað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2007 | 13:02
BJÖRN BJARNASON, ÞÓRUNN OG ÁRÓSASAMNINGURINN.
Á fundi Framtíðarlandsins um Árósasamninginn í gær kom fram hve við Íslendingar séum miklir eftirbátar nágrannaþjóða okkar í virku lýðræði varðandi umhverfismál og að einstakir ráðherrar eins og Björn Bjarnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir geti ráðið miklu þar um, til dæmis með því að beita sér fyrir fullgildingu svonnefnds Árósasamnings og að endurbæta íslenskan efnisrétt um umhverfismál.
Í fyrirlestri Aðalheiðar Jóhannsdóttur kom fram að þær reglur ESB sem séu hliðstæðar og undanfari Árósasamningsins hafi meðal annars verið settar til að knýja fyrrum austantjaldsþjóðir til að bæta úr skorti á lýðræði í þessum málum og auðvelda ráðamönnum þar að skipa málum þannig að lokaákvarðanir þeirra byggist á bestu fáanlegu upplýsingum og skoðanaskiptum.
Nú er staðan hins vegar þannig að Íslendingar draga lappirnar í þessum málum á sama tíma og allar aðrar Norðarlandaþjóðir og jafnvel austantjaldsþjóðir hafa samþykkt svona ákvæði. Alls 41 þjóð hefur fullgilt Árósasamninginn.
Hér heima skortir að dómi Aðalheiðar mikið á að svonefndur efnisréttur sé virkur. Þess vegna verði að fara dómstólaleið á fleiri málum hér en erlendis og þar sé mikið ójafnræði með aðilum því að stjórnvöld og ráðamenn hafi þar yfirburði.
Í Árósasamningum eru ákvæði um að ríkisvaldinu sé skylt að styrkja fjárhagslega viðurkennda andmælendur í álitamálum og þar er kannski um að ræða mikilsverðasta efni samningsins.
Þess vegna eru margföld ástæða til að velta vöngum yfir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli. Vitað er um áhuga í röðum Samfylkingarfólks um að fullgilda samninginn en á sama hátt virðist Björn ekki hrifinn af því að sauðsvartur almúginn hafi sig mikið í frammi. Hvers vegna segi ég það?
Jú, á fundinum í gær kom fram í máli pallborðsmanns að Björn hefði þrengt ákvæði um gjafsókn en það gerir samtökum, félögum og einstaklingum erfiðara að leggja út í dýr dómsmál, - einnig að það væri fyrst og fremst Björn sem drægi lappirnar í því að fullgilda Árósasamninginn.
Björn er dómsmálaráðherra og hefur því talsvert um þetta mál að segja. Í nágrannalöndum okkar er svonefndum efnisrétti mun betur fyrir komið en hér, - þar eru ákvæði um efnistök, skilyrði, málsmeðferð og úrskurðarnefndir sem auðvelda miðlun upplýsinga og skoðana áður en koma þurfi til kasta dómstóla.
Maður hefði ætlað að dómsmálaráðherra væri því fylgjandi að létta álagi af dómstólum landsins og stuðla að lagabreytingum sem efla lýðræði og möguleika á niðurstöðum í erfiðum málum áður en í óefni er komið.
Björn var einn harðasti gagnrýnandi alræðis og ofríkis miðstjórnarvaldins í Austur-Evrópu á tímum kalda stríðsins og ætti því að fagna umbótum á íslensku réttarkerfi í anda lýðræðishugmynda sem eiga uppruna sinn í landi frelsisins, Bandaríkjunum.
Ég á erfitt með að trúa því að hann dragi lappirnar gagnvart nútíma hugmyndum um upplýsingu, lýðræði og umhverfsmál sem jafnvel fyrrum austantjaldsþjóðir hafa tekið upp.
Ég lýsi því eftir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli svo að það liggir fyrir hvar hann stendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)