3.9.2007 | 13:49
HÓTEL AKUREYRI, FÁFRÆÐIN OG SINNULEYSIÐ.
Ég var að uppgötva það fyrir tilviljun í gær að til standi að rífa Hótel Akureyri. Það sýnir fáfræði mína sem verður eitt sandkornið í því afskiptaleysi fólks sem tryggir að þetta verði að veruleika að ég nú ekki tali um ef ég nenni ekki að gefa því gaum hvort eð er og rækti hið þægilega sinnuleysi sem manni finnst stundum að geri hversdagslífið þægilegra. Þar með bætist ég í þann stóra hóp landsmanna sem nennir ekki að nálgast málið og gefur þar með lausan tauminn öllum þeim fyrirætlunum sem byggjast á því að nógu margir séu haldnir þessu tvennu: sinnuleysi og fáfræði.
Ein afsökunin fyrir því að eyða þessu húsi er sú að það sé í slæmu ástandi. Þetta var líka sagt um Bernhöftstorfuna, ekki hvað síst eftir að eldur stórskemmdi hana. Samt tókst að bjarga henni með því að gera áhlaup á fáfræðina og sinnuleysið. Nú er þetta notað á Laugavegarhúsin tvö sem stendur til að rífa.
Hótel Akureyri mun vera eitt þriggja samliggjandi húsa sem skapa heillega og fallega götumynd ef þeim er sómi sýndur. Þau eiga saman sem heild eins og Kasper og Jesper og Jónatan.
Já, en Hótel Akureyri var alltaf svo slappt, einfalt og frumstætt hótel ef miðað er við Hótel KEA, segja sumir, en átta sig ekki á því að einmitt það gefur Hótel Akureyri gildi að þangað leitaði maður ef maður vildi spara peninga. Að þessi hús kallist á og haldi áfram að gegna hlutverkum sínum er svona álíka og að hafa bæði Puntilla og Matta á sviðinu, ekki bara þann ríkari.
Hótel Akureyri er ekki einkamál Akureyringa fremur en hliðstæð hús í Reykjavík, já eða húsin í Prag sem Evrópubúar þakka fyrir að tókst að forða frá glötun.
Margar sögur og margar minningar fólks frá ýmsum heimshornum tengjast hótelum og því ætti að fara sérstaklega varlega í það að rífa slík hús.
Það glyttir nánast alls staðar í fáfræðina og sinnuleysið þegar litið er á þær framkvæmdir sem nú er þrýst á að koma í gegn hér á landi. Þetta tvennt eru bestu bandamenn þeirra sem vilja skjóta fyrst og spyrja svo.
Við blasir eitt gott nýtt dæmi: Rannsóknarleyfi í Gjástykki. Gjástykki? spyrja menn. Hvað er nú það? Leirhnjúkur? So what?
Og önnur dæmi eru legíó. Þar er af nógu að taka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)