FRÁ PAVAROTTI TIL KRISTINS SIGMUNDSSONAR.

Andlát Pavarottis hefur hleypt af stað vangaveltum um tenórsöngvara sem varpa ljósi á þann mátt sem spilun af diskum og í útvarpi og sjónvarpi hefur á mat nútímafólks á söngvurum. Það væri synd ef frammistaða stórsöngvara í óperuhúsum án hljóðnema fengi engu að ráða um þetta mat. Pavarotti var jafnvígur á hvort tveggja og enginn söngvari hefur leikið það eftir honum að syngja hljóðnemalaus í Laugardalshöll og fylla hana af beljandi rödd sinni en þó svo undursamlega fagurri.

Frábær lýsing Stefáns Jóns Hafsteins daginn eftir á einstæðum fagnaðarlátum gesta á þessum tónleikum og frammistöðu Pavarottis er mér enn í fersku minni.

Ég missti af tónleikunum, - var þetta sama kvöld upptekinn ásamt Guðjóni Einarssyni við að yfirheyra frambjóðendur til embættis forseta Íslands í sjónvarpinu.

Þegar The Telegraph nefnir fjóra söngvara sem hugsanlega arftaka Pavarottis, þeirra á meðal Garðar Þór Cortes, þá er það gríðarleg upphefð fyrir þennan frábæra íslenska söngvara. Hann á ekki langt að sækja það, - faðir hans hefur alla tíð sungið sérstaklega vel.

Frammistaða Garðars yngri gefur ástæðu til að hrósa honum sérstaklega fyrir það hve vel hann spilar úr sínum spilum, enda unun að hlusta á hann.

Björninn er samt ekki unninn, - hann á eftir að sanna sig í frægustu óperuhúsunum áður en endanlegum sigri er fagnað. Þar þarf hann ekki síður á raddstyrk og fyllingu raddar að halda en frábærri túlkun og fagurinn rödd.

Í mínum huga er Jussi Björling álíka jöfur meðal tenóra liðinnar aldar eins og Pavarotti en mér er ekki eins ljóst hve voldug rödd hans var í óperuhúsum án hljóðnema.

Jussi Björling kom að vísu til Íslands að mig minnir 1954 en olli miklum vonbrigðum í Þjóðleikhúsinu, þreyttur og timbraður eftir erfitt flug og farinn að dala eftir margra ára óreglu.

Því er ég að tala um þetta að eitt sinn fórum við Helga með alla fjölskyldu okkar, alls níu manns, á óperettuna Leðurblökuna í Íslensku óperunni. Þar sungu meðal annarra Garðar Cortes og Júíus Vífill Ingvarsson eins og englar.

Í Leðurblökunni kemur jafnan fram gestasöngvari í hvert sinn og kvöldið sem við vorum þarna kom Kristján Jóhannsson þarna fram, þá á hátindi getu sinnar.

Þá fannst það vel hvernig þessi volduga og hljómmikla rödd fyllti salinn út í öll horn svo að það varð eftirminnilegasta atriði þessa kvölds.

Þarna kom í ljós að þessi helsti kostur Kristjáns gat ekki notið sín á hljómdiskum og því er það borin von að kynslóðir framtíðarinnar muni geta metið Kristján með því að hlusta á upptökur af söng hans, því að hljómstyrkur raddarinnar er sterkasta hlið hans.

Á sínum tíma var rætt um það að Mario Lanza gæti orðið annar Caruso eftir frammstöðu hans í kvikmynd um Caruso. Lanza naut sín að sjálfsögðu best á hljómplötum og fljótlega kom í ljós að miklu nær væri að Benjamino Gigli væri nefndur í þessu sambandi.

Ekki get ég fjallað hér um íslenska stórsöngvara án þess að minnast á þann söngvara íslenskan sem best hefur sungið að mínu mati, - Kristin Sigmundsson.

Bara eitt dæmi varðandi það. Kristinn fékk stutta umsögn í einu virtasta tónlistarblaði Evrópu um flutning óperunnar Töfraflautunnar í sænskri óperu. Umsögnin um túlkun og söng Kristins á sínu stóra hlutverki í verkinu hljómaði svona ef ég man rétt: "Kristinn Sigmundsson söng hlutverk sitt svo að betur verður ekki gert."

Ég get ekki ímyndað mér að neinn annar íslenskur söngvari hafi fengið slíka umsögn um frammistöðu sína á óperusviði í jafn virtu tímariti.

Kristinn er hins vegar ákaflega yfirlætislaus og hógvær maður sem ekki þarf að hreykja sér eða trana sér fram og þessi frétt um umsögnina lofsamlegu var flutt í útvarpsfréttatíma klukkan 16:00 og síðan ekki söguna meir.

Þar að auki geldur Kristinn þess að vera ekki tenór.


Bloggfærslur 8. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband