10.1.2008 | 20:42
PÍLATUSARÞVOTTUR Á NÝ?
Björn Bjarnason segir að Þorgerður Katrín megi ekki taka ákvörðun um Laugavegshúsin. Hann vill greinilega að hún geri svipað og Pílatus á sínum tíma sem þvoði hendur sínar og vísaði máli Krists frá sér. Þorgerður segist ætla að fara að vilja fólksins, sem mér virðist, samanber næstu bloggfærslu hér á undan, vita álíka mikið um hið raunverulega eðli þessa máls og fólkið vissi um Krist, sem hrópaði: Krossfestu hann! Krossfestu hann! Nú er hrópað í skoðanakönnun í Fréttablaðinu: Rífum þau! Rífum þau!
Og nú er spurningin hvort Þorgerður Katrín geri svipað og Pílatus forðum. Ég vona að svo fari ekki.
![]() |
Einkennileg staða varðandi Laugavegshús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.1.2008 | 20:35
UPPLÝSING OG LÝÐRÆÐI.
Upplýsing er forsenda lýðræðis. Vanti upplýsingar verða teknar rangar ákvarðanir. "Garbage in - garbage out." Mál húsanna við Laugaveg er klassadæmi. Fyrst eftir 15 ára umfjöllun um húsin í borgarkerfinu tekur húsafriðunarnefnd málið fyrir. Ég var síðast á Laugavegi í gærkvöldi og heyrði ungt fólk hallmæla þessum "húsdruslum" og vilja þær burtu, þetta væri svo ljótt. "Hafið þið séð í Morgunblaðinu hvernig þau yrðu ef þau yrðu endurbyggð í upprunalegri mynd?" spurði ég. "Nei", svöruðu þau, - "hafa þau ekki alltaf verið svona?"
"Hafið þið skoðað Bernhöftstorfuna?"spurði ég. "Nei", svöruðu þau, vissu ekki hvað Bernhöftstorfan var. "Vitið þið að húsið á horninu er eftirlíking af eimreið sem dregur húsaröðina á eftir sér?" Nei, þau vissu það ekki.
Ég hef verið þarna nokkrum sinnum og rætt við fjölda fólks en engan hitt sem vissi mikið meira en þetta unga fólk, hvorki unga né gamla. Síðan er skoðanakönnun í Fréttablaðinu þar sem meirihlutinn veit líkast til lítið meira um þetta mál en fólkið sem ég hef hitt þarna.
Menntamálaráðherra segist ætla að fara að vilja fólksins. Dómsmálaráðherra gefur á bloggsíðu sinni Þorgerði Katrínu línuna og segir að hún megi ekki ákvarða í málinu. Málið verði að fara frá Pílatusi til Heródesar.
Rífum kofana! Rífum kofana! Þetta vill fólkið núna og svipað hefur heyrst áður. Krossfestu hann! Krossfestu hann! Og aftur þvær Pílatus hendur sínar, eða hvað?
Í svona tilfellum er ekki fólkinu um að kenna heldur þeim sem hafa látið undir höfuð leggjast að veita því upplýsingar.
Þetta er kunnugleg hringekja: Upplýsingar vantar og skoðanakönnun leiðir í ljós álit fólks þar sem yfirgnæfandi meirihluti veit ekki hvað verið er að tala um. Á grundvelli þessa á síðan að taka endanlega ákvörðun.
Enn heiti ég á Þorgerði Katrínu að þvo ekki hendur sínar eins og Pílatus heldur taka á þessu máli eins og hún gerði í hliðstæðu máli á Akureyri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2008 | 12:52
Á ERINDI VÍÐAR.
Í meira en hálfa öld hef ég dundað mér við að teikna bíla á borð við þann sem getur bylt samgöngum á Indlandi. Ég hef allan þennan tíma verið þeirrar skoðunar að ekki þurfi 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti um göturnar í okkar heimshluta, en að meðaltali eru bílar þetta þungir og 1,1 maður að jafnaði í hverjum bíl. Svona bílar leysa ekki vandamál skorts á orku eða útblástur gróðurhúsalofttegunda nema að hluta en það er til dæmis mikill munur sem fæst með því að létta bílana og minnka eyðslu og útblástur um helming og spara jafnframt dýrt rými á dýrum samgöngumannvirkjum.
Það er meira að segja tæknilega mögulegt að framleiða tveggja manna bíl sem er þrefalt léttari og fjórfalt sparneytnari en meðalbíllinn í dag og gæti þar að auki ekið samhliða öðrum jafnstórum á hverri akrein og hægt yrði að leggja fjórum í stæði þar sem einn kemst fyrir nú.
Sjálfur hef ég ekið minnsta mögulega bíl sem völ hefur verið á í bráðum 50 ár og fyrir utan blokkina sem ég bý í kem ég fyrir fjórum slíkum í stæðinu fyrir framan bílskúrinn þar sem aðeins einn venjulegur bíll kemst fyrir.
Það tekur langan tíma að þróa nýja orkunotkunartækni og skipta henni inn í stað þeirrar sem nú er og smækkun bílaflotans, sem notaður er í snatt í þéttbýli er fljótlegasta leiðin til þess að byrja á umbótum og lengja þann umþóttunartíma sem þarf á meðan skipt er um orkugjafa.
![]() |
Ódýrasti bíll í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)