11.1.2008 | 10:54
"AF ÞVÍ HANN ER ÞARNA..."
Hve margir Íslendingar hafa séð Everest? Innan við tíu? Setjum sem svo að til stæði mikið umrót í hlíðum fjallsins vegna efnistöku. Þá myndu margir Íslendingar nota sömu rök og notuð eru um Gjástykki og fossaraðirnar í Þjórsá og Jökulsá í Fljótsdal og notuð voru um Eyjabakka og Hjalladal, að vegna þess hve fáir hefðu komið þangað væri í góðu lagi að stúta þessum fyrirbærum. Davíð Oddsson og fleiri notaði þessi rök.
Everest er gott dæmi um það að erlendis eru það viðurkennd rök að aðeins vitundin um tilvist merkilegra fyrirbæra sé nóg til þess að þau séu varðveitt. Þar er því hafnað að eina leiðin til að gera náttúrufyrirbæri aðgengileg sé að umturna þeim fyrst.
Þegar fyrstu Bandaríkjamennirnir komu í Yellowstone friðuðu þeir svæðið einmitt vegna þess hve fáir hefðu komið þangað því að þeir vildu koma í veg fyrir að með auknum ferðaalögum þangað yrðu unnin þar spjöll. Hér á landi hefðu ráðamenn talað um að einmitt vegna þess hve fáir hefðu séð Yellowstone væri nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í virkjanir af öllu tagi áður en svæðið yrði þekkt. Virkjanirnar myndu um leið gera aðgang að svæðinu greiðari.
Everest og Yellowstone mun standa ósnert eftir því sem kostur er. Er þó Yellowstone ekki á lista yfir undur veraldar eins og hinn eldvirki hluti Íslands.
Vesturlandabúar fóru á límingunum af hneykslan þegar Talibanarnir í Afganistan létu sprengja frægar Búddastyttur þar í fjöllunum. Enginn Íslendingar hafði séð þær og örfáir útlendingar.
Ég minnist þess enn hve ótrúlegt mér þótti að Everest hefði verið klifinn, nýbúinn að lesa um fjallið í bók sem hét "Undur veraldar."
Get kannski heldst tjáð mig um málið með þessum texta við samnefnt lag, sem gerður var á sínum tíma fyrir ferð upp á Hvannadalshnjúk:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
(Fyrir fjallgönguna)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hamrahlið þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir.
Inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann,
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann,
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví ertu, góði, að gera þig digran?
Gættu þín, vinur. Skortir þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama:
Af því hann rís þarna, bara af því.
(Um nóttina við rætur hans)
Á tunglskinsnóttu öllu´af sér kastar.
Í bláum skugga hann berar sig hér.
Yfir þig hvelfist. Á þig hann hastar:
Ertu´orðinn vitlaus, hvað ætlarðu þér?
(Daginn eftir)
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir,
hríslast um makka hans óveðursský.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður. Áfram vill ögra.
Á þá hann skorar sem líta hans mynd.
Þolraun enn bíður þeirra sem skjögra
þreyttir á Ísalands hæsta tind.
Hvers vegna að klífa´hann? Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klær hans í?
Svarið er einfalt og alltaf það sama?
Af því hann er þarna, bara af því.
Af því hann er þarna, bara af því.
![]() |
Edmund Hillary látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)