12.1.2008 | 23:45
FORD T INDLANDS.
Nákvæmlega öld eftir að Henry Ford innleiddi Ford T-model, "bíl fyrir fjöldann", ætla Indverjar að reyna það sama, að framleiða svo einfaldan, lítinn og ódýran bíl að hluti indversks almennings geti veitt sér að eignast hann í stað þess að ferðast um á vélhjólum. Sama gerðist í Evrópu fyrst eftir stríðið þegar örbílar og Volkswagen-bjöllur gerðu það sama fyrir álfu í rústum. Ford T var ótrúlega léttur, einfaldur, sterkur og ódýr. Áður en menn sjá allt rautt í kringum Nano-bílinn þarf að huga að eftirfarandi:
Indverjar framleiddu 1,5 milljónir bíla 2006 fyrir 1000 milljónir manna. Með sama áframhaldi tæki það 300 ár fyrir þá að skaffa jafn marga bíla á íbúa og tíðkast í okkar heimshluta og þá yrðu allir bílarnir á Indlandi að endast allan þennan tíma.
Bandaríkjamenn kaupa árlega miðað við fólksfjölda 40 sinnum fleiri nýja bíla en Indverjar og ef miðað er við stærð bílanna og eyðslu er eyðslan og útblásturinn hundraðfaldur í Bandaríkjunum.
Kínverjar framleiddu 1,5 milljón FLEIRI bíla 2006 en 2005 og þeir eru margir hverjir býsna stórir og eyðslufrekir.
Rússar framleiða enn í miklu magni gömlu Lada 2105 bílana (Nova) sem voru býsna vinsælir hér á landi fyrir 30 árum, en þessir bílar eru með gamaldags blöndunga sem blása meira út í andrúmsloftið og menga meira en bílar með beinni innspýtingu.
Mesta ógnin af völdum útblásturs bíla er því ekki á Indlandi heldur í Kína og Bandaríkjunum. Kinverjar munu með sömu útþenslu í bílaframleiðslu verða komnir fram úr Japönum og Bandaríkjamönnum innan tíu ára. Útblástur Nano-bílanna verður innan við eitt prósent af útblæstri bandaríska bílaflotans.
Þegar við umhverfisáhugamenn á Vesturlöndum ætlum að fara á límingum af áhyggjum af því að Indverjar gerast svo djarfir að apa eftir okkur eftir að hafa horft á lúxusinn okkar úr fjarlægð í heila öld ættum við að líta í eigin barm og athuga hvort róttækar hugmyndir Indverja um komast af með einfaldari lausnir eigi ekki erindi til Vesturlandabúa.
Það vorum við Vesturlandabúar sem hrundum þessu af stað og stöndum þannig að því í dag að það sem Indverjar láta sig dreyma um er aðeins lítið brot af okkar framlagi til sóunar á takmarkri orku jarðarinnar, svo að ekki sé minnst á áhrifin á lofthjúpinn.
![]() |
Ekki hrifnir af ódýrum bíl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2008 | 19:58
ERU SUMIR JAFNARI EN AÐRIR?
Athyglisverð er fréttin um eiganda veitingastaðar sem telur að sömu lög og reglur eigi að gilda á þeim opinbera stað sem Alþingishúsið sé og á veitingastöðum. Með öðrum orðum að alþingismenn hafi talið sig og sinn stað svo miklu mikilvægari en veitingastaðina að þar gildi aðrar reglur. Sé svo má með sanni segja að allir hafi verið jafnir fyrir lögunum en sumir jafnari en aðrir.
Annars minnir framtak eiganda veitingastaðarins á þá áráttu Íslendinga að þurfa að láta reyna á alla hluti. Sighvatur Björgvinsson sagði einu sinn sögu af því þegar sett var upp skilti í inngangi félagsheimils þar sem stóð: Gestir fari úr skófatnaði.
Kona ein sem kom á staðinn óð samt inn á skítugum stígvélum. Þegar konunni var bent á skiltið sagði hún: "Já, en það er bara talað um gesti en ekki heimamenn héðan úr sveitinni." Forsvarsmaður félagsheimilisins sagði þá að auðvitað væri átt við alla sem kæmu inn í húsið og spurði hvers vegna konan hagaði sér svona.
Þá svaraði konan: "Ég vildi bara láta á þetta reyna."
Eigandi veitingastaðarins virðist vera á svipuðu róli og nú verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því þegar hann lætur reyna á orðalag laganna og hvort allir séu jafnir fyrir lögunum eða hvort sumir séu jafnari en aðrir.
![]() |
Yfirvöld geta ekki gert neitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)