15.1.2008 | 19:59
BJÖRK ATHYGLISSJÚK?
Fróðlegt viðtal var við föður Bjarkar Guðmundsdóttur í Íslandi í dag nú í kvöld. Hann vitnaði í fréttir þess efnis að "árás" hennar á ljósmyndara á Nýja-Sjálandi væri til merkis um athyglissýki hennar. Einnig hefði verið sagt að nýleg "árás"Britneyjar Spears á ljósmyndara væri til merkis um að hún væri athyglissjúk. Þetta minnir á það þegar sagt var um Björk Guðmundsdóttur á sínum tíma þegar hún mótmælti Kárahnjúkavirkjun að það sýndi að hún væri haldin athyglissýki.
Með öðrum orðum: Kona sem er fræg meðal milljarða manna reynir á sjúklegan hátt að vekja athygli á sér hjá 300 þúsund manna þjóð, 0,005% mannkyns. Þetta eru sömu mannfjöldahlutföll og að maður sem væri frægur á Íslandi og vildi hafa áhrif á ákveðið mál á Grímsstöðum á Fjöllum væri talinn athyglissjúkur ef hann tjáði sig þar á bæ um málið.
Spyrja hefði mátt á móti á sínum tíma: Þarf manneskja sem er fræg um allan heim á því að halda að vekja á sér athygli á því útskeri sem Ísland er? Ég þekki sjálfur vel til aðstæðna Bjarkar þegar hún er hér heima og allt það sem hún þarf að gera til þess að losna við þessa margumtöluðu athygli, sem sagt er að hún sækist eftir á sjúklegan hátt.
Björk er ekki ein um að verða fyrir grófri ásókn hér heima. Ég hef heyrt lýsingar á því hvernig Eiður Smári Guðjohnsen hefur lent hér heima í kröppum dansi í hatramlegri ásókn um hábjarta daga um helgar og skemmst er að minnast árása á hann og Hannes Þ. Sigurðsson knattspyrnumann í miðborg Reykjavíkur þar sem bloggað var eftirá um það að þeir Eiður og Hannes gætu sjálfum sé um kennt, - þeir ættu ekki að vera á "fylleríi" í miðborginni !
Samkvæmt þessu bloggi getur hver sá sem er "að flækjast" niðri í miðborg að næturþeli sjálfum sér um kennt ef ráðist er hann og honum hrint í götuna eða hann margbeinbrotinn !
Nú eru liðin tólf ár frá síðustu "árás" Bjarkar Guðmundsdóttur á ljósmyndara. Ég set "árás" innan gæsalappa því að enginn talar um árásir paparazzi á þá, sem þeir sækja svo ákaft á, að dæmdur væri á þá margfaldur ruðningur ef þeir væru í handboltaleik.
Þeir sem smjatta á því að Björk sé ekki geðlaus ættu að kynna sér í hverju það er fólgið að standast stöðuga ásókn ljósmyndara sem víla ekki fyrir sér að stjaka og hrinda fólki stanslaust og ryðjast eins og mannýg naut inn að skotmörkum sínum.
Athyglisvert er að faðir Bjarkar upplýsti að hvergi fengju Björk og hennar líkar betri frið en í stórborginni New York.
Þótt Björk hafi loksins þrotið þolinmæðina eftir tólf ára áreiti held ég ekki að það sé hvorki merki um athyglissýki hennar né árasarhneigð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)