HEILDARHLÝNUNIN MARKTÆKUST.

Þeir sem andmæla því að gróðurhúsaáhrif valdi hlýnun á jörðinni eru fljótir að grípa einstakar fréttir um kulda hér og kulda þar, kuldamet o.s.frv. En þá ber þess að gæta að í öllum athugunum vísindamanna hefur komið fram að heildarhlýnun geti leitt til kólnunar á afmörkuðum svæðum. Gríðarlegur gangur heitra lægða norður eftir N-Atlantshafi undanfarna mánuði hefur fært norðurhéruðum Skandinavíu rigningar og hlýindi og borið mikinn raka yfir Bretlandseyjar og norðanvert meginland Evrópu.

Þetta viðvarandi djúpa og víðáttumikla lægðakerfi hefur hins vegar valdið því að stöðugir kaldir straumar hafa komið úr norðri og farið suður með vesturströnd Grænlands.

Ég hef áður tekið sem dæmi að oft valda mestu hlýindin á Barðaströnd því að sumarlagi, að hlýtt loft stígur upp af ströndinni og í staðinn leggur svalt loft af Grænlandshafi inn firðina í Vesturbyggð svo að þessir miklu góðviðrisdagar á Barðaströnd færa íbúum Vesturbyggðar hrollkalda innlögn eins og hún er kölluð vestra.

Og því hlýrra sem er á Barðaströndinni, því ákafari verður þessi kaldi strekkingur inn firðina og kemur fyrr á morgnana en ella.  

Fyrir tíu árum höfðu vísindamenn áhyggjur af því að hringekja hafstrauma sem liggur um Atlantshaf og Indlandshaf kynni að truflast ef of mikið af ís bráðnaði á skömmum tíma í Íshafinu. Það gæti jafnvel valdið breytingu í öfuga átt, mikilli kólnun á Norður-Atlantshafi.

Mjög erfitt hefur verið að sanna slíkar kenningar um svona flókið fyrirbæri. Hitt virðast menn vera nokkuð sammála um að of hraðar breytingar á hita lofthjúpsins geti valdið ófyrirsjáanlegum sveiflum á mismunandi svæðum. Þess vegna eigi mannkynið ekki að rugga bátnum of harkalega heldur að fara að öllu með gát.  

Aðeins með því að taka meðalhitann á allri jörðinni yfir lengra tímabil en nokkur ár er hægt að sjá hvort um hlýnun lofthjúpsins sé að ræða. Ef sú er raunin segja kuldar hér og þar okkur ekkert annað en það að hraðar heildarbreytingar geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og því eigi að forðast þær.  


mbl.is Kaldasti vetur á Grænlandi í tíu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...MISBEITIR STÓRLEGA..."

Meginatriði ráðningar Árna Mathiesens má koma niður í þessi tvö ofanrituðu orð. Í lögunum um þetta stendur að "ráðherra teljist sekur samkvæmt lögum þessum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín". Vörn Árna byggist á því að hann hafi ekki farið út fyrir embætistakmörkin en það er ekki nóg. Hann verður að sanna að hann hafi ekki misbeitt valdi sínu stórlega. En þá er komið að því að meta hvað sé "stórleg misbeiting".

Um það snýst deilan.

Tökum hliðstætt dæmi. Á fyrri hluta síðustu aldar tíðkaðist það í Vopnafirði að eftir grunnskólapróf fékk einn nemandi styrk til framhaldsnáms hjá sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur fékk slíkan styrk.

Setjum sem svo að fjórir nemendur hafi lokið grunnskólaprófi í Vopnafirði eitt árið og þrír nemendur hafi verið efstir og nokkuð jafnir, allir með yfir 9,0 í meðaleinkunn, eða ágætiseinkunn. Fjórði nemandinn, sonur alþingismannsins, hafi staðist prófið en verið með aðra einkunn, segjum 7,0, sem nægði þó til að hann héldi áfram námi ef foreldrar hans hefðu til þess getu. Hann væri sem sé hæfur til framhaldsnáms en samkvæmt einkunnunum virtust hinir þrír samt vera miklu hæfari.

Hreppsnefndin hafi síðan ákveðið að styrkja son alþingismannsins til framhaldsnáms. Hefði verið hægt að segja að hún hefði "misbeitt stórlega" valdi sínu?

Ég hygg að svo sé.

Hreppsnefndin hefði getað réttlætt valið með því að segja að einkunnir í skóla væru ekki einhlítur mælikvarði á getu fólks og nefnt sem dæmi menn sem hefðu orðið forsætisráðherrar þótt þeir hefðu rétt skriðið á stúdentsprófi. Ekki væri vitað annað en að þeir hefðu staðið sig frábærlega í starfi.

Hreppsnefndin hefði líka getað sagt að það væri óréttlátt að láta son alþingismannsins líða fyrir það að vera sonur föður síns og sífelldar ábendingar um það væru mjög óréttlátar að öllu leyti.

Hreppsnefndin hefði getað vísað til þess að oft áður hefði hún orðið að meta hver væri hæfastur til framhaldsnáms og standa að vali á ýmsum sviðum og að hún hefði til þess vald og væri beinlínis skylt að ákveða þetta eftir bestu samvisku og mati, sem ekki gæti eingöngu byggst á einkunum.

Það væri ekki einhlítt að sá sem hefði hæstu einkunnina hlyti styrkinn.

Sonur alþingismannsins væri búinn ágætum kostum sem ekki kæmu fram í námsárangri hans og hefði til dæmis staðið sig vel í tónlistarnámi, leiklist og félagslífi, og samið sögur, en slíkt gæti gagnast mjög vel síðar meir.

Skólanefndin hefði mótmælt þessu og sagt að hér væri gróflega vegið að hæfni hennar til að meta námsárangur nemenda og hæfileika til framhaldsnáms.

Og eftir situr álitamálið: Hvað er "grófleg misbeiting"?


Bloggfærslur 16. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband