19.1.2008 | 17:08
AÐ MÖRGU AÐ HYGGJA.
Bloggpistill minn um Sundabraut hefur vakið umræður, meðal annars í þættinum "Í vikulokin" í morgun. Ég hefði kannski átt að skrifa lengri pistil því að ósk mín um víðtækari útreikninga og upplýsingar átti ekki aðeins við um það svæði sem hugsanlega þyrfti að leggja undir innri leiðina umfram það svæði sem færi undir gangaleiðina heldur einnig um ýmis önnur svið sem sumer erfitt að meta til fjár.
Það er rétt sem G. Pétur Matthíasson segir í blaðagrein í dag að aðalumferðaræð framtíðarinnar, þjóðleiðin frá Kjalarnesi suður fyrir Hafnarfjörð verður styttri ef innri leiðin er farin heldur en ef gangaleiðin er farin. En um mismun er að ræða á fleiri leiðum en henni einni og allt þetta þarf að vera uppi á borðinu.
Samgöngur á landi hafa þann kost að hægt er að hafa þær upp að vissu margi neðanjarðar. Það er hins vegar hvorki hægt varðandi hafnir eða fluvelli. Ef hægt væri að hafa Reykjavíkurflugvöll neðanjarðar þyrfti varla að ræða það mál frekar en þannig er það því miður ekki.
Flugvöllurinn verður að vera ofanjarðar og þar er líka annar munur miðað við göng. Ef á annað borð er tækniega hægt að leggja göng verða aksturskilyrði í þeim ævinlega hin sömu. Hins vegar geta aðstæður á mismunandi flugvallarsvæðum verið það ólík að skipti sköpum um notagildi hans.
Ég hef í fyrri bloggpistli mínum um flugvallarmálið reynt að varpa upp fleiri sjónarmiðum en áður hefur verið gert og kallað eftir notkun á réttum og viðeigandi tölum en á því finnst mér hafa verið misbrestur. Ég vísa í þennan pistil ef menn vilja skoða það nánar.
Eitt af því sem þarf að athuga í sambandi við samgöngumannvirki er útsýni. Eitt versta dæmið sem ég man eftir um það að útsýni hafi verið einskis metið var hvernig útsýnið til norðurs yfir Sundahöfn af Kleppsvegi var að mestu eyðilagt með samfelldri húsaröð sem byrgir sýn yfir stað, sem fyrr á tíð var eftirsótt myndefni málara þess tíma.
Þegar ég spurði talsmann borgarskipulagsins að þessu á sínum tíma var svarið: Bílstjórar eiga ekkert að vera að glápa til hliðar á útsýnið. Ég benti honum á að á þessari leið væru líka farþegar í bílum, jafnvel allt að 55 manns.
Þegar ég kom til Chicago í fyrsta sinn óku Vestur-Íslendingarnir með okkur hjónin eftir Lake Shore Drive sem er hraðbraut á bakka Michican-vatnsins og mærðu mjög hið frábæra útsýni yfir vatnið. Var þó ekkert að sjá annað en vatnið sjálft, því að bakkinn hinum megin er svo lágur að hann sést ekki af Lake Shore Drive.
Af Kleppsvegi er útsýn yfir eyjar og sund, með Esjuna, Skarðsheiði, Akrafjall í baksýn.
Í Álaborg er hægt að fara á tvennan hátt yfir Limafjörð, á brú eða um göng. Sem ferðamaður ók ég að sjálfsögðu yfir brúna útsýnisins vegna þótt það væri mun seinlegra.
Mér finnst útsýnið í akstri eftir nýju Hringbrautinni í austurátt mun betra til Öskjuhlíðar og Perlu en var á gömlu Hringbraut, raunar all tilkomumikið. Kannski verður einhvern tíma gert svipað þar og í Álaborg, að bjóða upp á akstur bæði um göng og á yfirborðinu. Þá yrði hægt að mjókka Hringbrautina á yfirborðinu um helming en halda samt fyrirferðarlítilli akstursleið ofanjarðar fyrir ferðamenn og aðra sem hafa gaman af góðu útsýni í akstri.
Enginn Frakki myndi láta sér til hugar koma að leggja breiðgöturnar í áttina að Etoile-torginu með sínum Sigurboga niður og setja alla umferðina í jarðgöng.
Útsýni úr bíl er að mínum dómi ekkert síður einhvers virði en annað útsýni. Efstu hæðir í blokkunum við Skúlagötu eru metnar til tugum milljóna króna hærra verðs en alveg eins, jafnstórar íbúðir í Túnunum rétt hjá þar sem er ekkert útsýni.
Það, að Kveldúlfshúsin og Völundur voru rifin niður er svo efni í annan bloggpistil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2008 | 01:18
NÝRUN BERA OFURHEILANN OFURLIÐI.
Kannski var Bobby Fisher mesti skáksnillingur sögunnar. Á leiðinni til þess að fá að tefla við Boris Spasskí vann hann bestu skákmenn heims með fáheyrðum yfirburðum, m. a. einn allra snjallasta skákmann Sovétríkjanna, Taimanov, 6-0 og einnig Bent Larsen með sömu yfirburðum. Ógleymanlegt var hvernig engu máli skipti fyrir hann þótt hann gæfi Spasskí forskot í upphafi einvígis þeirra með því að byrja það á 0-2, og koma ekki að skákborðinu í annarri skákinni. Andvörp áhorfenda í Laugardalshöllinni yfir sumum snilldarleikjum hans í einvíginu verða mér ógleymanleg.
Magnús Pálsson, bróðir Sæma, sagði mér í dag að Fisher hefði ekki aðeins verið mikill bókaormur og ótrúlega fróður á mörgum sviðum, heldur hefði hann verið undrafljótur að lesa þykka doðranta og muna efni þeirra.
Minni hans á skákbyrjanir og skákir var næstum ómennsk. En eins og margir snillingar vantaði í ýmsa þætti persónuleikans og til dæmis er ekki hægt að sjá mikla skynsemi í því að afneita nútíma læknavísindum. Það dró hann til dauða um aldur fram.
Bobby Fisher var dásamleg viðbót við þjóð sem hefur átt Reyni Pétur, Jón Pál, Kjarval, Sölva Helgason, Björk, Gísla á Uppsölum, Kvískerjabræður og Einar Ben. Ég held að það hafi verið Íslendingum til sóma að taka að sér og aumka sig yfir þennan óstýriláta, skrýtna og sérvitra snilling og bæta honum í ótrúlega fjölskrúðugt liftróf eyjarskeggana á Klakanum.
Tvívegis í sögu Bandaríkjanna skipuðust mál á þann veg að augu bandarísku þjóðarinnar og vestrænna lýðræðisþjóða hvíldu á einstaklingum sem áttu í höggi við stolt stórvelda með alræðisþjóðskipulagi.
Í fyrra skiptið var það Joe Louis í hnefaleikahringnum andspænis fulltrúa "ubermensch"hins aríska kynþáttar Hitlers og seinna skiptið Bobby Fisher einn og einmana andspænis fulltrúa hinnar stórkostlegu skákmaskínu sem Sovétríkin höfðu byggt upp kerfisbundið áratugum saman.
Í bæði skiptin var það einstaklingurinn sem sigraði með yfirburðum. Þegar Fisher er allur held ég að gott sé fyrir Bandaríkjamenn að meta þetta afrek hans að verðleikum sem dæmi um það hverju einstaklingurinn getur áorkað, - og skipa honum, þrátt fyrir alla sérviskuna og ýmsar ógeðfelldar yfirlýsingar, á þann stall sem honum ber meðal mestu afreksmanna ameríkumanna.
![]() |
Dánarorsök Fischers var nýrnabilun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)