2.1.2008 | 23:16
HVAÐ UM MELKORKU? / FLEIRA EN HLÝNUN.
Vegna furðulegrar hindrunar sem birst hefur á mbl-vefnum við því að ég færi nýja bloggfærslu ætla ég að reyna að komast inn með því að breyta næstu færslu á undan en láta hana koma á eftir. Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld sagði Gísli Einarsson, vinur minn og félagi, að Brák væri frægasta ambátt Íslandssögunnar. Sá fjórðungur minn sem ættaður er úr Dölum vestur reis upp við dogg og spurði: Hvað um Melkorku?
Það eru tæp 60 ár síðan ég las Laxdælu og Eglu en mig minnir að miklu meira hafi farið fyrir Melkorku í texta Laxdælu en Brák í texta Eglu. Auk þess er Laxdæla mitt uppáhald vegna þess að mér finnst hún vera sígildari og hafa elst betur og eiga meira erindi við samtíma okkar en nokkur önnur Íslendingasagna.
Gísli Einarsson á heima í Borgarnesi og Brák og Egill væru nú talin Borgnesingar. Amma mín í föðurætt, frændur mínir, Jón frá Ljárskógum og Jóhannes úr Kötlum og Melkorka, - allt þetta fólk átti heima í nágrenni Búðardals og teldust nú samsveitungar.
Af þessum sökum kanna að vera að við Gísli séum vanhæfir til að dæna í þessu máli. Gísli sagði við mig í kvöld að hann teldi Egils svo miklu merkilegri en aðra Vestlendinga á hans tíð að Brák ætti að njóta þess þegar hún væri metin. Hann sagðist reyndar ekki hafa munað eftir Melkorku í svipinn þegar hann skrifaði fréttina.
Engu að síður gátum við ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu í málinu og ég skýt þessu því til blogglesenda.
Af fyrstnefndum tæknilegu örðugleikum kemur hér svo "hýsil"-blogg pistill minn:
FLEIRA EN HLÝNUNIN.
Í allri umræðunni og deilunum um hlýnun jarðar af mannavöldum gleymist það sem gefur jafn mikla ástæðu til að minnka notkun óendurnýjanlega orkugjafa strax og ekki er hægt að deila um. Það er hvernig nú er sólundað og bruðlað með það takmarkaða eldsneyti sem eftir er í olíulindum jarðarinnar. Með því að bruðla með það er styttur sá umþóttunartími sem jarðarbúar hafa til þess að fikra sig yfir í notkun annarra orkugjafa.
Þetta ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum veldur því að auki að meira er blásið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en ef gripið væri strax til aðgerða.
Ef strax væri reynt eftir fremsta megni að minnka notkun jarðefnaeldsneytis ynnist þrennt:
1. Lægra orkuverð vegna minni eftirspurnar en ella hefði verið.
2. Lengri tími til þess að vinna að því að skipta yfir í aðra orkugjafa.
3. Hægari hlýnun og þar af leiðandi minni áhrif af henni og lengri tími til að fást við afleiðingar hennar.
Þeir sem streitast við að afneita áhrifum manna á hlýnunina geta ekki mælt á móti atriðum nr. 1 og 2. Nema þeir vilji afneita því að jarðefnaeldsneyti sé takmarkað og benda á það að þetta sé svipaður heimsendaspádómur og heyrðist fyrst um 1960 þar sem spáð var þurrð um 1980 til 1990, síðan aftur um 1980 þegar spáð var þurrð upp úr aldamótum.
Rétt er það að með bættri rannsókna- og bortækni hafa fundist nýjar og nýjar olíulindir. Í allri umfjöllum um þessi mál ber mönnum þó saman um það nú að leiðin geti ekki legið nema niður á við í síðasta lagi upp úr 2020. Æ dýrara er og erfiðara að ná til þeirrar olíu sem eftir er.
Og það sem verra er: Allan þann tíma sem eftir er til notkunar á jarðefnaeldsneyti munu Arabaríkin ráða yfir yfirgnæfandi hluta af því sem til er á jörðinni, allt til enda.
Það er auk þess fásinna að treysta ávallt á það að nýjar og jafngóðar olíulindir finnist endalaust. Allir hljóta, fjandinn hafi það, að vera sammála um það að jarðefnaeldsneyti er ekki endurnýjanleg orkulind.
Það er hreint ábyrgðarleysi og til skammar fyrir okkar kynslóð hér á jörðinni að vilja varpa vandanum og úrlausnarefnunum á herðar afkomendanna. Það erum við sem sköpum vandann og okkur ber að leysa hann.
Okkur ber að skila jörðinni betri til afkomendanna en við tókum við henni.
![]() |
Verð á hráolíu fór í 100 dali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.1.2008 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2008 | 14:48
ÖRUGGARI BÍLAR OG AKSTURSFRAMFÖR.
Þetta tvennt ræður mestu um það að hægt sé að segja þær góðu fréttir að banaslysum fækki í umferðinni þótt fréttir af banaslysum séu ævinlega dapurlegar. Með orðunum "framför í akstri" er átt við hæfilegri hraða og betri aðgæslu og einbeitingu ökumanna. Öruggari bílar vega ef til vill þyngst en betri öryggisbúnaður verður þó gagnslaus ef menn nota ekki bílbelti og skortur á notkun þeirra veldur sífellt 4-6 banaslysum á ári auk tuga alvarlegra slysa, sem hægt væri að komast hjá.
Því miður er erfitt að komast hjá alvarlegum slysum á meðan nógu margir aka ölvaðir eða sýna vítavert gáleysi sem jaðrar við það að ganga með byssu um götur og skjóta í allar áttir.
Akstursfærni margra er ábótavant og þeir því vanbúnir til réttra viðbragða þegar óvæntar aðstæður koma upp. Almenn aðstaða til æfinga við erfið skilyrði á erfiðum vegum vantar enn og illitsleysi og sofandaháttur vaða enn uppi. Það væri gott áramótaheit hjá okkur öllum að taka okkur á í þessum efnum.
![]() |
15 létust í umferðarslysum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2008 | 06:57
EILÍFÐARVANDI KNATTSPYRNUNNAR.
Meiðsli vegna tæklinga er eilífðarvandi knattspyrnunnar, sem kemur upp aftur og aftur. Einna lengst komst hann í heimsmeistarakeppninni 1966 þegar Brasilíumenn kvörtuðu sáran undan meðferðinni sem þeir voru látnir sæta á vellinum, og kenndu henni um að þeir komust ekki áfram í úrslitaleikinn. Þetta er líka eilíðfðarvandamál dómaranna því að takmörk eru fyrir því hve langt þeir geta gengið í að koma í veg fyrir að hinir brotlegu hagnist á brotum sínum þegar á heildina er litið.
Harka verður ávallt eitt af atriðum knattspyrnu og handbolta. Í handboltanum hefur gamla orðtakið "að taka vel á móti" sem notað var um góðan viðurgerning við gesti, breyst í það að nota öll hörkubrögð, "læsingar", olnbogaskot o. s. frv. þegar "tekið er vel á móti" andstæðingum þegar þeir sækja inn að vörninni.
Faðir minn heitinn var Íslandsmeistari hjá Fram í 1. flokki 1939 og sagði mér frá því hvernig hinn þýski þjálfari Linnemann gerbreytti leik liðsins á öllum sviðum, gerði hann bæði hraðari, nettari og skipulagðari, en einnig harðari á vissum sviðum. Hann gerði varnarmanninn Sigurð sem kallaður var "Stalín" að einum helsta máttarstólpa liðsins og lét hann til dæmis taka allar vítaspyrnur liðins, en það var þá alveg óþekkt að varnarmenn gerðu það.
Hann lét sig engu varða hverjir hefðu tekið vítaspyrnurnar fram að því heldur lét alla leikmenn liðsins reyna sig á fyrstu æfingunnni og valdi, öllum á óvörum, Sigga Stalín til hlutverksins. Þessi sterki varnarmaður skoraði öugglega úr öllum vítaspyrnum sem hann tók eftir það og ævinlega eins, með þrumuföstu "sláttuvélarskoti" rétt ofan við jörð í bláhornin. Eitt sinn fór skot hans í stöngina.
Linnemann lagði áherslu á sálfræðinni í leiknum og fljótur að reikna út skæðasta og liprasta sóknarmann Vals, Ellert "Lolla" Sölvason.
"Lolli er í sérflokki sem sóknarmaður og hættulegasti mótherjinn í Val" sagði sá þýski, "en hann hefur sálrænan veikleika, - sem felst í því að hann mun brotna andlega ef hann er tekinn nógu föstum tökum, því að hann skortir líkamlegan styrk. Í næsta leik verður það hlutverk Sigga Stalíns að taka Lolla sérstaklega fyrir og beita hann ítrustu hörku, láta hann finna fyrir líkamlegum styrkleikamun svo um munar."
Hann gaf Sigga Stalín heimild til að ganga svo langt ef þurfa þætti að hann tæki áhættu af að verða rekinn af leikvelli. "Ég spái því að ef þú þurfir ekki að taka svona fast á Lolla nema einu sinni og þá verður hann alltaf hræddur við þig eftir það. "
Þetta gekk eftir og Siggi Stalín þurfti ekki að ganga til hins ítrasta gegn Lolla nema einu sinni í næsta leik. Eftir það var greinilegt að Lolli kveið ævinlega fyrir því að lenda á móti Sigga, sem þurfti aðeins og koma nálægt honum til að hafa sitt fram og þurfti eftir þetta ekki að beita hann meiri hörku en sýndist vera eðlileg og innan marka.
Linnemann tók sérstaklega fyrir vörn gegn hornspyrnum og taldi að markvörðurinn ætti að geta náð til 90% þeiirra, en það var alveg nýtt mat í íslenskri knattspyrnu. Hann lét markvörðinn standa úti í fjærhorninu í stað þess að fram að því höfðu markverðir staðið í miðju marki, - taldi að markvörðurinn sæi betur yfir markteiginn á þessum stað og ætti betra með að fara á móti boltanum og bægja hættunni frá.
Knattspyrnan getur verið hörð og óvægin íþrótt og vonandi er hún ekki eftir að komast á það stig sem hún komst á tímabili í heimsmeistarakeppnnini 1966, að hinn brotlegi hagnist á brotum sem beitt er í tíma og ótíma.
![]() |
Meiðslin hjá Tevez skyggðu á sigur United |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)